Mjólkursamsalan skiptir yfir í rafmagnsbíla

  

„Sölufólk okkar er mikið á ferðinni og því er ánægjulegt að geta fært okkur yfir í grænni akstur“ segir Hermann Erlingsson, aðstoðarsölustjóri hjá Mjólkursamsölunni, en fyrirtækið skipti út bílaflota söludeildarinnar fyrir rafmagns- og tengitvinnbíla á dögunum.

Um er að ræða fjóra rafmagnsbíla og fimm tengitvinnbíla. „Sölufólk okkar ferðast víðsvegar um landið allt árið um kring og þar sem víða skortir enn innviði notum við tengitvinnbílana í lengri ferðir. Með vonandi bættum innviðum á næstu misserum getum við svo skipt alfarið yfir í rafmagnsbíla“ segir Hermann.

Framkvæmdir hafa verið í gangi við höfuðstöðvar fyrirtækisins í Reykjavík þar sem nú er búið að koma upp átta hleðslustöðvum. Þá er einnig tengitvinnbíll notaður frá starfsstöðinni á Akureyri. „Sölufólk Mjólkursamsölunnar keyrir um 180 þúsund kílómetra á ári svo það munar um minna þegar kemur að kolefnislosun“ segir Hermann.  

Þá ber einnig að nefna að Mjólkursamsalan hefur verið að leita leiða til orkuskipta fyrir stærri bifreiðir fyrirtækisins en MS er þriðja stærsta flutningsfyrirtæki landsins. Í haust var í því tilliti tekinn í notkun flutningabíll sem gengur á metani og er nýttur til útkeyrslu á höfuðborgarsvæðinu.

Fleiri fréttir

 

Aðstoð

Hvernig getum við aðstoðað?