Forvarnarstefna gegn einelti, áreitni og ofbeldi

 

Við umgöngumst hvert annað af virðingu og líðum ekki hegðun á vinnustaðnum sem leiðir til vanlíðanar annarra s.s.. eineltis, kynferðislegrar áreitni, kynbundins áreitis eða ofbeldis. Ef upp koma tilvik vegna kvörtunar eða ábendingar sem leiðir til að rökstuddur grunur er um slíkt áskiljum við okkur rétt til að grípa til aðgerða í samræmi við skriflega áætlun um öryggi og heilbrigði á vinnustað skv. reglugerð nr.1009/2015.

 

HVAÐ ER EINELTI, ÁREITNI OG OFBELDI?

Einelti: Ámælisverð eða síendurtekin ótilhlýðileg háttsemi, þ.e. athöfn eða hegðun sem er til þess fallin að niðurlægja, gera lítið úr, móðga, særa, mismuna eða ógna og valda vanlíðan hjá þeim sem hún beinist að. Skoðanaágreiningur eða ágreiningur vegna ólíkra hagsmuna fellur ekki hér undir.

Kynferðisleg áreitni: Hvers kyns kynferðisleg hegðun sem er í óþökk þess sem fyrir henni verður og hefur þann tilgang eða áhrif að misbjóða virðingu viðkomandi einkum þegar hegðunin leiðir til ógnandi, fjandsamlegra, niðurlægjandi eða móðgandi aðstæðna. Hegðunin getur verið orðbundin, táknræn og/eða líkamleg.

Kynbundin áreitni: Hegðun sem tengist kyni þess sem fyrir henni verður, er í óþökk viðkomandi og hefur þann tilgang eða áhrif að misbjóða virðingu viðkomandi og skapa aðstæður sem eru ógnandi, fjandsamlegar, niðurlægjandi, auðmýkjandi eða móðgandi fyrir viðkomandi.

Ofbeldi: Hvers kyns hegðun sem leiðir til eða gæti leitt til, líkamslegs eða sálræns skaða eða þjáninga þess sem fyrir henni verður, einnig hótun um slíkt, þvingun eða handahófskennd svipting frelsis.

 

Skylda hvers atvinnurekanda er að skipuleggja starfsemi þannig að dregið sé úr hættu á að einelti eða að önnur ótilhlýðileg háttsemi geti þrifist innan fyrirtækisins. Að sama skapi skal bregðast tafarlaust við ef grunur leikur á slíku og kanna málavexti. Ef rétt reynist þarf að koma í veg fyrir að slíkt viðgangist og þá mögulega í samráði við vinnuverndarfulltrúa á vinnustaðnum, utanaðkomandi ráðgjafa eða aðra er málið varðar.

 

Skylda starfsmanns sem hefur orðið fyrir eða hefur vitneskju um einelti, áreiti eða ofbeldi á vinnustað felur í sér að upplýsa atvinnurekanda eða vinnuverndarfulltrúa vinnustaðarins um það. Skal starfsmaðurinn ávallt vera reiðubúinn að skýra mál sitt nánar ef ástæða þykir til.

 

Áætlun þessi lýsir hvernig Mjólkursamsalan ætlar að stuðla að forvörnum og aðgerðum gegn einelti, áreiti og ofbeldi innan fyrirtækisins og þ.m.t. öllum starfsstöðvum þess.

  • Fræða starfsfólk um stefnu fyrirtækisins, upplýsingaskyldu starfsfólks og viðbrögð ef grunur leikur á einelti eða ámælisverðri hegðun.
  • Tengja gildi fyrirtækisins MS JÁ við hegðun sem dregur úr líkum á einelti, áreiti eða ofbeldi. Safna saman upplýsingum og setja á innri vef og í starfsmannahandbók.
  • Stuðla að sameiginlegum viðburðum meðal starfsfólks til að efla samkennd og góð samskipti.
  • Skilgreina verklagsreglur sem lýsa viðbrögðum við einelti, áreiti og ofbeldi og ábyrgð stjórnenda og starfsfólks til að samræmi sé í vinnubrögðum innan fyrirtækisins.
  • Ef grunur leikur á einelti, áreiti eða ofbeldi innan fyrirtækisins ber stjórnendum skylda að setja í gang aðgerðaplan skv. verklagsreglu þar sem sérfræðingur er kallaður til ef þörf er á
Aðstoð

Hvernig getum við aðstoðað?