Starfsemi

Vöruþróun

Mjólkursamsalan ehf. er markaðsdrifið fyrirtæki sem greinir þarfir neytenda til að geta boðið þeim hollar og fjölbreytilegar matvörur sem framleiddar eru úr íslenskri kúamjólk. Vöruþróun og nýjungar í framleiðslu er mikilvægur þáttur í starfsemi Mjólkursamsölunnar. Á ári hverju koma um 30 nýjungar á markað frá fyrirtækinu. 

Rannsókn
Rannsóknarstofur Mjólkursamsölunnar hafa ýmiss konar hlutverkum að gegna, en aðallega því að gæta þess að heilsu almennings sé ekki stefnt í voða með óæskilegum gerlum eða aðskotaefnum. Rannsóknarstofurnar skiptast í tvo hluta, annars vegar gerlarannsóknir og hins vegar efnafræðilegan hluta. Í gerlarannsóknarhlutanum er fylgst með gæðum þeirrar mjólkur sem berst til MS í Reykjavík, svo og geymsluþoli framleiddra vara. Í efnafræðilegum hluta rannsóknarstofanna er fylgst með samsetningu og efnainnihaldi mjólkurvara á hinum ýmsu stigum framleiðslunnar.

Framleiðsla og pökkun
Hrámjólk til framleiðslunnar berst til mjólkurstöðvanna með tankbílum og er henni dælt í gegnum kælikerfi og safnað í geymslutanka. Þaðan fer mjólkin svo inn í vinnsluferlið. Mannshöndin kemur hvergi nærri mjólkinni frá því að hún er komin í tankbílinn uns hún er komin á borð neytenda. Mjólkin flæðir í sírennsli í lögnum um vinnslusalina og er rennslinu stýrt með tölvum.

Öll mjólk sem berst í mjólkurstöðvarnar er gerilsneydd með því að snögghita hana og snöggkæla aftur. Þannig er komið í veg fyrir að í henni leynist sýklar. Mjólkin er gerilsneydd, skilin, hreinsuð og fitusprengd í samhangandi ferli. Fylgst er með gangi vinnslunnar á skjámyndum sem gefa nákvæmar upplýsingar um magn, hitastig og afurðategund í hverjum tanki, flæði gegnum hita- og kælitæki, o.m.fl. Að endingu er mjólkurafurðunum safnað í stóra tanka áður en þær fara til pökkunar í neytendaumbúðir eða áframhaldandi vinnslu s.s. ostagerð. Fullunnar vörur eru fluttar inn á kælilager þar sem þær bíða útkeyrslu.

Allt framleiðsluferlið lýtur ströngu gæðaeftirliti og unnið er samkvæmt sérstöku eftirlitskerfi sem tryggir að sama vara sé ávallt framleidd á samam hátt þannig að ekki sé munur á henni frá degi til dags. Könnuð eru sýni úr fullunnum vörum til að fylgjast með gæðum og geymsluþoli.

Sala og dreifing
MS er markaðsdrifið fyrirtæki sem er leiðandi á íslenskum drykkjar- og matvælamarkaði. Vöruframboði er stýrt í takt við þarfir markaðarins með fjölbreyttu úrvali mjólkurafurða sem uppfylla kröfur neytenda um hollustu og þægindi.

Mjólkursamsalan er eitt stærsta dreifingarfyrirtæki landsins. Bílar félagsins flytja á ári hverju sem nemur um 150.000 tonnum af mjólk frá framleiðendurm til af afurðastöðvanna á ári. 55-60.000 tonn af tilbúnum afurðum eru svo fluttar í stórum stíl til dreifingarmiðstöðva um allt land. Auk þess fer fram staðbundin dreifing til þrjú til fimm þúsund viðskiptavina víðsvegar um allt land.

Aðstoð

Hvernig getum við aðstoðað?