Af hverju notar MS plastumbúðir?

Mjólkursamsalan hefur stigið þónokkur skref til að draga úr plastnotkun og nú síðast flutt alla skyr- og jógúrtdrykki úr plastdósum í nýjar og umhverfisvænni pappafernur. Við erum sífellt að skoða leiðir til að draga úr plasti í skyr-, jógúrt- og ostaumbúðum í samráði við bæði innlend og erlend fyrirtæki sem sérhæfa sig í umbúðalausnum fyrir matvæli. En á sama tíma og kröfur um umhverfisvænar umbúðir eru háværar er mikilvægt að hugsa til þess að umbúðir séu sterkar og góðar svo gæði og geymsluþol varanna haldist sem best. Því miður eru plastumbúðir enn sem komið er besta lausnin fyrir skyr, jógúrt og ost en við hvetjum neytendur til að skila öllum umbúðum frá okkur til endurvinnslu.

MS hóf nýverið sölu á ostasneiðum í minni pakkningum, en við höfum fengið óskir þess efnis frá neytendum og verslunum í nokkur ár. Plastið í 8 sneiða boxinu er minna en plastið í 16 boxinu þar sem askjan er grynnri. Þessar pakkningar eru hugsaðar fyrir minni heimili þar sem stærri einingar, með 16 sneiðum, eru of stórar og því voru sumir viðskiptavinir að lenda í því að henda síðustu sneiðunum. Of stórar pakkningarnar geta þannig stuðlað að matarsóun, en með góðum og endurlokanlegum umbúðum má draga úr matarsóun sem er mikill kostur og eitt af markmiðum MS.

MS leggur mikla áherslu á að fylgjast vel með allri framþróun í umhverfisvænni og plastminni umbúðalausnum og munu starfsmenn fyrirtæksins gera sitt besta í þessum efnum sem öðrum.

Fleiri algengar spurningar og svör

 

Aðstoð

Hvernig getum við aðstoðað?