Jón Sigurðsson

 

Veggspjald af Jóni Sigurðssyni

 

Æviferill Jóns Sigurðssonar
Jón Sigurðsson var fæddur að Hrafnseyri við Arnarfjörð 17. júní árið 1811. Átján ára gamall fór hann til Reykjavíkur og tók stúdentspróf með afburða lofi. Síðan stundaði Jón verslunarstörf hjá föðurbróður sínum. Vorið 1830 gerist Jón skrifari hjá Steingrími biskupi Jónssyni í Laugarnesi. Áhugi Jóns á íslenskum fræðum og öllu því sem íslenskt var blómgaðist í biskupsgarði.

Í Kaupmannahöfn
Frá 1833 til 1845 bjó Jón Sigurðsson í Kaupmannahöfn. Fyrst nam hann málfræði og sögu við háskólann þar, en hann lauk aldrei embættisprófi. Áhugi hans á íslenskum þjóðmálum jókst mjög um þetta leyti. Hann starfaði á Árnasafni um árabil og varð með tímanum helsti sérfræðingur í íslenskum handritum.

Endurkoma til Íslands
Vorið 1845 hélt Jón áleiðis til Íslands til að sitja endurreist Alþingi fyrir Ísafjarðarsýslu. Það voru hans skoðanir sem hvað mest mótuðu þingið fyrstu árin og má segja að andi hans hafi svifið þar yfir vötnum allt til þessa dags. Hann var 10 sinnum kjörinn forseti þingsins og hefur enginn maður gegnt þeirri stöðu jafn lengi.

Sjálfstæðisbaráttan
Árið 1848 afsalaði Danakonungur sér einveldi. Þá birti Jón Hugvekju Íslendinga og var það stefnuskrá hans í sjálfstæðisbaráttunni sem flestir Íslendingar fylgdu undir forystu hans. Hér kom Jón fram með hin sögulegu rök, sem urðu eins og rauður þráður í allri hans baráttu, en aðalatriði hennar var að Íslendingar fengju að ráða sér sjálfir.

Þjóðfundur
Danska stjórnin boðaði til þjóðfundar í Reykjavík sumarið 1851. Lagði hún frumvarp fyrir fundinn þar sem þjóðréttindi Íslendinga voru höfð að engu. Íslensku fulltrúarnir lögðu fram annað frumvarp að undirlagi Jóns Sigurðssonar. Ekki leist konungsfulltrúa á frumvarp Jóns og samherja hans og sleit hann því fundinum í nafni konungs. Þá hljómaði setning sem margir kannast við: „Vér mótmælum allir.“ Á þjóðfundinum tók Jón Sigurðsson endanlega forystu fyrir Íslendingum í baráttu þeirra fyrir auknum stjórnarfarslegum réttindum og hélt henni til æviloka. Jón lagði sig einnig fram um að kynna sér verslunar- og hagsögu Íslands. Hann benti á að verslunarfrelsi væri undirstaða þjóðfrelsis og hamraði sífellt á því að einokunarverslunin hefði haft afgerandi áhrif til ills fyrir þjóðina. Öflug forysta hans hafði úrslitaáhrif á að verslun við Ísland var gefin öllum þjóðum frjáls 1. apríl 1855.

Jón forseti
Vorið 1851 var Jón kosinn forseti Hafnardeildar Bókmenntafélagsins. Störf hans fyrir félagið urðu mjög umfangsmikil og gegndi hann forsetastarfinu til æviloka. Af þessu starfi fékk hann viðurnefnið Jón forseti.

Stjórnarskrá 1874
Á þúsund ára afmæli Íslandsbyggðar, 1874, afhentu Danir Íslendingum sérstaka stjórnarskrá sem markar þáttaskil í íslenskri sjálfstæðisbaráttu. Með stjórnarskránni fékk Alþingi löggjafarvald með konungi og fjárforræði. Þá skýrðist betur fyrir mönnum hversu þýðingarmikið starf Jón Sigurðsson hafði unnið fyrir þjóð sína. Jón andaðist í Kaupmannahöfn 7. desember 1879. Kona hans Ingibjörg, sem hafði verið við sjúkrabeð manns síns, lést níu dögum síðar. Á silfursveig sem Íslendingar í Höfn settu á kistu Jóns stóðu þessi orð: „Óskabarn Íslands, sómi þess, sverð og skjöldur.“

Útdráttur úr heimasíðu Jóns Sigurðssonar.

Hér getur þú pantað veggspjöldin þrjú.

Aðstoð

Hvernig getum við aðstoðað?