Halldór Laxness

 

Árið 2002 voru100 ár liðin frá fæðingu Halldórs Laxness. Af því tilefni ákvað Mjólkursamsalan að heiðra minningu hans með útgáfu á veggspjaldi þar sem andlit Halldórs birtist gegnum tilvitnanir í íslensk bókmenntaverk. Veggspjaldinu er ætlað að draga upp mynd af orðsnilld í íslensku máli, mynd sem gæti vakið skilning og áhuga á þeim fjársjóði sem falinn er í bókmenntaarfi þjóðarinnar.

 

Sambærilegt veggspjald, þar sem andlit Jóns Sigurðssonar var myndað með ljósmyndum af Íslendingum, kom út árið 1996. Þá var hugmyndin að birta brot af menningarsögu þjóðarinnar um leið og vakin væri athygli á mikilvægi tungumálsins í lífi okkar allra.

Bæði þessi veggspjöld eru liður í íslenskuátaki Mjólkursamsölunnar, Íslenska er okkar mál, sem unnið hefur verið í samstarfi við Íslenska málnefnd allt frá árinu 1994. Markmið með átakinu er að styrkja íslenska tungu og hefur Mjólkursamsalan unnið að því að glæða áhuga almennings á móðurmálinu með ýmsum hætti. Við gerð nýja veggspjaldsins naut MS góðs af ábendingum frá Íslenskri málstöð auk ómetanlegrar aðstoðar frá Rithöfundasambandi Íslands.

Tilvitnanirnar á veggspjaldinu sýna texta allt frá fornbókmenntum til nútímabókmennta og þar eru hátimbruð spakmæli í bland við létt gamanmál. Lögð var áhersla á að sýna bæði fleyg orð og fallegt mál en ekki síður skemmtilega texta sem hafa lífgað upp á tilveruna.

Mörg af helstu skáldum þjóðarinnar eiga orð á veggspjaldinu. Þó er aldrei unnt að tryggja að allir séu með sem með réttu eiga heima þar sem stiklað er á stóru í íslenskri bókmenntasögu. Tilvitnanirnar eru 152 og nafngreindir höfundar eru 76. Af einstökum höfundum á Halldór Laxness sjálfur flestar tilvitnanirnar eða 27. Á bakhlið veggspjaldsins er heimildaskrá og lykill að skammstöfunum höfunda.

Samhliða veggspjaldinu gefur Mjólkursamsalan út hefti sem sent er í alla grunnskóla landsins. Í heftinu eru tilvitnanirnar birtar í heild ásamt heimildaskrá og nánari upplýsingum um hverja tilvitnun. Þá fylgja sumum tilvitnananna hugmyndir að verkefnum sem kennarar í efri bekkjum geta nýtt í bókmenntakennslu.

Tilvitnanirnar á veggspjaldinu koma frá ýmsum tímum og eru skrifaðar jafnt af lærðum sem leikum. Margar þeirra sýna hvernig fagurlega orðuð spakmæli hafa orðið að málsháttum og orðatiltækjum og þar má einnig finna útúrsnúninga, orðaleiki, slangur og dægurflugur. Saman mynda þessar tilvitnanir fjölbreytta flóru af íslenskum texta og þegar maður nálgast veggspjaldið má tína úr því gersemar úr íslenskri bókmenntasögu.

Hér getur þú pantað veggspjöldin þrjú.

Aðstoð

Hvernig getum við aðstoðað?