Um málshætti og orðtök

„Íslenskir málshættir eru oftast stuttar og gagnorðar málsgreinar, mjög oft ein setning hver, sem menn bregða fyrir sig í daglegu tali eða rituðu máli, gjarnan sem skírskotun til almennt viðurkenndra sanninda um ýmis fyrirbæri mannlegs lífs…Þeir eru oftast höfundarlausir eins og mestallur orðaforði tungunnar. Málsháttur helst meira og minna í föstum skorðum og honum er ætlað að fela í sér meginreglu eða lífspeki. Þessi stöðugleiki er einkenni málsháttarins bæði á ferli sínum manna á meðal á hverjum tíma og eins þótt hann erfist frá kynslóð til kynslóðar“.(Íslenskir Málshættir, með skýringum og dæmum, Sölvi Sveinsson, 1995.)

Enda þótt rétt sé að málshættir séu að mestu óumbreytanlegir, laga þeir sig þó oft að því samhengi sem þeir standa í, til dæmis hvað varðar hætti sagnorða og tíðir. Sumir málshættir eru einnig til í ögn mismunandi gerðum s.s. vandi eða vant er vel boðnu að neita, og nefna mætti fleiri dæmi af slíku.

Þess ber að geta að málshættir, orðkviður eða spakmæli eru allt reynslusannindi um breytni manna og lýsa oftast viðhorfum alþýðu. Langflestir málshættir víkja að margvíslegri hegðun mannalýsa henni, lofa, vara við eða fordæma. Það er sammerkt með málsháttum að orðabókarmerking þeirra lýsir að jafnaði aðstæðum sem gátu verið raunverulegar en nú eru þeir langoftast notaðir í yfirfærðri merkingu og jafnan til þess að lýsa viðbrögðum eða breytni manna við hvers kyns aðstæður. Eftir storminn lifir aldan á sjónum nokkra hríð þó lygnt sé orðið. Eins hagar til hjá mönnum. Renni þeim í skap eða verði þeir fyrir áfalli er oft öldugangur í sálinni þótt dagleg breytni falli í sömu skorður og fyrr.

Stundum er mjótt á munum í hugum manna hvort um er að ræða málshátt eða orðtak. En í raun er auðvelt að greina þar á milli. Málsháttur er fullgild og sjálfstæð málsgrein: Árinni kennir illur ræðari. Lélegir ræðarar kenndu árinni um eigin ómennsku og í yfirfærðri merkingu nota menn málsháttinn þegar einhver kennir öðru um en sjálfum sér. Orðtak hljóðar á þá lund að einhver komi ár sinni vel fyrir borð og jafnvel hvernig hann fór að því. Þá fyrst fær orðtakið fulla merkingu.

Málshættir eru að jafnaði meitlaðri en orðtök að formi til. Þeir standa næst alltaf í ljóðstöfum: Þar grær grasið sem girt er um; Fleira skín í augum en skartið eitt, o.s.frv. Mjög margir málshættir ríma einnig: Allt er það vænt sem vel er grænt, Betra er að vægjast til góðs en bægjast til ills o.s.frv. Í mörgum málsháttum er taktföst hrynjandi, enda eru sumir málshættir upphaflega ljóðlínur; Illt er öðrum ólán sitt að kenna, Sitt vill meinið sérhvern þjá o.s.frv.

Það er einnig eðli málshátta að lifna og deyja, jafnvel breyta um búning eftir aðstæðum. Enginn veit hvað átt hefur, fyrr en misst hefur, hljóðar gamall málsháttur og er víst rétt. Enginn veit hvað átt hefur fyrr en flutt hefur, segja margir núna og mun líka rétt. Sumir málshættir hverfa úr daglegu máli þegar tilefni þeirra er gleymt, aðrir lifa.

Málshættir og spakmæli eiga oft rætur í bókmenntum. Úr verkum Jóhanns Sigurjónssonar má til dæmis nefna, fjarlægðin gerir fjöllin blá og mennina mikla, og þegar stórt er spurt verður oft fátt um svör. Þá er fjöldi málshátta einnig oft upphaflega tilsvör úr þjóðsögum og Íslendingasögum. Málshættir og spakmæli hafa orðið til á öllum öldum byggðar á landinu og eru enn að verða til af ýmsu tilefni.

 

Aðstoð

Hvernig getum við aðstoðað?