Málræktarþing MS

 

Dagur íslenskrar tungu
Undanfarin ár hefur dagur íslenskrar tungu verið haldinn hátíðlegur um miðjan nóvember ár hvert að tilhlutan menntamálaráðuneytisins. Ýmislegt hefur verið gert í tilefni dagsins, en hæst ber Málræktarþing Íslenskrar málnefndar, sem styrkt er af MS. Fjölmennt hefur verið á þessum málþingum og er augljóst að meginþorri Íslendinga ber hag tungu sinnar fyrir brjósti.

 

Málræktarþing 2007
Málræktarþing Íslenskrar málnefndar og MS var haldið undir merkjum dags íslenskrar tungu í hátíðarsal Háskóla Íslands 10. nóvember 2007. Efni fundarins var málstefna í mótun og kynnti Guðrún Kvaran, formaður Íslenskrar málnefndar drög að íslenskri málstefnu. Nokkrir aðilar fluttu fyrirlestra um þetta málefni frá ólíkum hliðum og verðlaun voru veitt fyrir íslenskunotkun í fjölmiðlum.

Guðbrandur Sigurðsson, forstjóri Mjólkursamölunnar, kynnti verkefnið Jónasarvefinn, sem Hvíta húsið og MS unnu að á árinu og í tengslum við 200 ára afmæli Jónasar Hallgrímssonar.


Málræktarþingið 1997
Á degi íslenskrar tungu þann 15. nóvember 1997 var Málræktarþing Íslenskrar málnefndar haldið að nýju. Á þinginu flutti Sigurður Líndal, prófessor, fyrirlestur um réttarstöðu íslenskrar tungu. Þá hélt Ástráður Eysteinsson fyrirlestur er kallaðist Þýðingar, menntun og þjóðarbúskapur. Einnig fjallaði Kristján Árnason, dósent, um þýðingarfræði og þýðingarlist.

Á þinginu 1997 opnaði Björn Bjarnason, þáverandi menntamálaráðherra, Orðabanka Íslenskrar málstöðvar sem má segja að geymi eina dýrmætustu eign okkar, íslenska tungu. Orðabankinn safnar saman hvers kyns tækni- og fræðiheitum á íslensku og veitir yfirsýn yfir íslenskan orðaforða í sérgreinum og nýyrði sem eru efst á baugi. Þar er að finna íslenskar þýðingar á erlendum sérfræðiorðum og hugtökum. Þær sérgreinar sem orðasafn bankans nær yfir eru til að mynda tölvufræði, uppeldis- og sálfræði, flug, bílar, efnafræði og stjörnufræði. Málræktarþingið 1996
Fyrsta málræktarþing Íslenskrar málnefndar var haldið í Háskólabíói þann 16. nóvember 1996 og bar það yfirskriftina Staða íslenskrar tungu. Málnefndin taldi að ástæða væri til að ræða þetta efni frá býsna víðu sjónarhorni og fá til liðs við sig áhrifamenn á sviði vísinda og menningar. Myndin til hægri er frá fyrsta Málræktarþinginu, 16. nóvember 1996. Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, ásamt Guðlaugi Björgvinssyni, þáverandi forstjóra MS, og Kristjáni Árnasyni, formanni Íslenskrar málnefndar.

Á þessu fyrsta málþingi greindi Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, m.a. frá þeirri ætlan sinni að mæla jafnan nokkrar setningar á íslensku í ræðum sínum á erlendri grund.

Aðstoð

Hvernig getum við aðstoðað?