Þorragráðaosturinn fæst tímabundið í verslunum

MS tekur fagnandi á móti Þorragráðaostinum á hverju ári og er hér um að ræða bragðmikinn ost sem er kjörin viðbót við íslenska ostaflóru og fæst hann nú tímabundið í verslunum landsins. Á þorranum er venjan að borða þjóðlegan íslenskan mat sem ögrar bragðlaukunum. Við þetta tækifæri er því tilvalið að gæða sér á Þorragráðaostinum sem er kröftugur og skarpur gráðaostur með margslungið og mikið bragð. Þorragráðaosturinn hefur þá sérstöðu að vera látinn eldast mun lengur en hefðbundinn gráðaostur. Þannig er gráðaosturinn sem við þekkjum flest geymdur við rétt hitastig í 6-8 vikur en Þorragráðaosturinn í 10-12 vikur. Osturinn er síðan geymdur í kæli í níu mánuði áður en hann fer í sölu og þessi langa meðhöndlun er galdurinn á bak við hversu bragðsterkur osturinn er og á sama tíma hversu bragðgóður hann er.


Áferð Þorragráðaostsins er þétt, munnþekjandi og örlítið kornótt. Bragðið ber í fyrstu vott af púðursykurssætu og kryddkeim, en þróast svo og minnir á kjöt og jafnvel villisveppi. Þessi konungur gráðaostanna parast einkar vel með sterkum og sætum bjórum og hann sómir sér vel á þorrahlaðborðinu. Hann hentar líka sérlega vel á ostabakka fyrir þá sem þora og eru óhræddir við kraftmikið bragð og má búa til ljúffengar þorrasnittur með honum og soðbrauði, flatkökum og sætri sultu eða hunangi.

Fleiri vörunýjungar

 

Aðstoð

Hvernig getum við aðstoðað?