Nýjar umhverfisvænni umbúðir

Liður í umhverfisstefnu MS er að leita sífellt leiða til starfa í sem mestri sátt við umhverfi og náttúru. Meðal þess sem við leggjum ríka áherslu á er að bjóða upp á endurvinnanlegar umbúðir og nú bætum við um betur og skiptum út fernunum okkar fyrir nýjar og umhverfisvænni sem eru ekki eingöngu endurvinnanlegar heldur jafnframt búnar til úr endurnýjanlegu hráefni úr plönturíkinu.

Eins og áður er pappinn í nýju fernunum úr trjám en það sem telst til tíðinda er að plastið sem notað er í tappann er unnið úr plöntum í stað olíu áður. Umbúðirnar eru þær umhverfisvænstu sem völ er á fyrir drykkjarmjólk og framleiddar af sænska umbúðarframleiðandanum Tetra Pak. MS er einn af fyrstu mjólkurvöruframleiðendum í heimi sem setur allar mjólkurfernur í þessar umbúðir.

En hverju breytir þetta og hvaða máli skiptir þetta í raun, kunna einhverjir að spyrja sig. Hefðbundið plast er unnið úr olíu, sem er takmörkuð auðlind, og við vinnslu á henni losnar aukið magn koltvísýrings CO2 út í andrúmsloftið sem hefur m.a. áhrif á hlýnun jarðar. Plastið í nýju fernunum er aftur á móti unnið úr sykurreyr. Sykurreyrinn er aðallega gróðursettur á rýru beitiland og niðurníddum högum og hverja plöntu er hægt að nýta til uppskeru í 5-7 ár áður en planta þarf nýrri. Með þessari nýju aðferð er ekki gengið á takmarkaðar jarðefnaauðlindir við framleiðsluna og jafnframt er dregið úr aukinni losun koltvísýrings út í andrúmsloftið. Á sama tíma og MS leitast við að spara orku í starfsemi sinni viljum við nota eins umhverfisvæna orku og kostur er og fellur framleiðslan á nýju fernunum því vel að markmiðum fyrirtækisins.

Þessum skilaboðum verður komið á framfæri við neytendur á nýju fernunum og auk þess sem ítarlegri upplýsingar verða fram á skýran og myndrænan hátt á sérstakri undirsíðu á vef Mjólkursamsölunnar, ms.is og fer hún í loftið á næstu dögum. Helstu skilaboðin sem við viljum færa neytendum eru í raun tvíþætt; í fyrsta lagi að nýju umbúðirnar séu umhverfisvænni en áður og í öðru lagi viljum við hvetja fólk til endurvinnslu. Fernurnar eiga nefnilega framhaldslíf fyrir höndum ef við skilum þeim til endurvinnslu en með því er bæði dregið úr urðun úrgangs ásamt því að bæði orka og landsvæði sparast. Hvert tonn af pappír sem fer til endurvinnslu sparar um 26.000 lítra af vatni og 17 tré og fyrir hvert kg af plasti sem fer til endurvinnslu sparast 2 kg af olíu (Heimild: Sorpa.is).

Nýju fernunum fylgja nokkrar breytingar á vélbúnaði MS og verða næstu þrjár helgar nýttar í að bæta viðeigandi varahlutum í vélarnar frá Tetra Pak en sá búnaður er tilkominn vegna þessa að nýju tapparnir eru aðeins breiðari og styttri en þeir sem fyrir eru.

Verum meðvituð um eigin neyslu, tökum afstöðu með umhverfinu og endurvinnum.

Fleiri vörunýjungar

 

Aðstoð

Hvernig getum við aðstoðað?