MS hefur kært ákvörðun SE

 

Mjólkursamsalan (MS) hefur kært ákvörðun Samkeppniseftirlitsins (SE) frá 7. Júlí síðast liðinn til Áfrýjunarnefndar samkeppnismála. Var kæruni skilað inn við lok kærufrests í gær. Jafnframt hefur MS greitt sektarfjárhæðina, samtals 480 m.kr., með þeim fyrirvara að í því felist ekki samþykki á niðustöðum SE og áskilur MS sér allan rétt til að endurkrefja fjárhæðina eða hluta hennar með dráttarvöxtum í samræmi við endanlega niðurstöðu málsins þegar hún liggur fyrir.

 

Kæran er mikil umfangs, en helstu kröfur og sjónarmið kæranda (MS) eru eftirfarandi:

Í fyrsta lagi telur kærandi að ógilda beri hina kærðu ákvörðun á þeirri forsendu að forstjóri SE hafi verið vanhæfur til meðferðar máls kæranda, sbr. sbr. 6. tl. 1. mgr. 3. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Undir rekstri máls þessa og hins fyrra máls sem leiddi til úrskurðar áfrýjunarnefndar samkeppnismála í máli nr. 5/2014 hefur hlutaðeigandi tjáð sig með afgerandi og sérlega neikvæðum hætti um lagaumhverfi mjólkuriðnaðar og starfsemi kæranda. Má því með réttu draga í efa óhlutdrægni hlutaðeigandi við meðferð og ákvörðun í máli kæranda.

 

Í öðru lagi telur kærandi að við málsmeðferð SE hafi orðið alvarlegur misbrestur á því að gætt væri að rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga, andmælarétti kæranda samkvæmt 14. gr. stjórnsýslulaga og vönduðum stjórnsýsluháttum að öðru leyti. Í fjölda tilvika skoraði kærandi á SE að afla upplýsinga um tilgreind atriði, sér í lagi vegna misskilnings stjórnvaldsins um samkomulag kæranda og  Kaupfélags Skagfirðinga svf. (hér eftir KS) um framlegðar- og verkaskiptingu, auk alvarlegs misskilning um greiðslur úr verðtilfærslusjóði, greiðslur vegna kaupa KS á Mjólku II og kostnað Mjólku I við mjólkursöfnun. Þá hefur stjórnvaldið látið undir höfuð leggjast að kanna með viðhlítandi hætti rekstur Mjólku I, fjárhagsstöðu þess og möguleg áhrif af meintri verðmismunun kæranda. Loks virðist SE með óskiljanlegum hætti rugla saman viðskiptum kæranda við tvo lögaðila sem fóru með rekstur undir merkjum Mjólku árið 2009. Að endingu má ljóst vera að engin rannsókn fór fram af hálfu SE á inntaki og áhrifum þeirra skilyrða í rekstri kæranda til framtíðar sem ákvörðunarorð kveða á um, auk þess sem kærandi fékk ekki gætt fullnægjandi andmæla vegna mögulegra skilyrða. Allt fyrrgreint, hvort heldur sérstaklega eða sameiginlega, leiðir til ógildingar hinnar kærðu ákvörðunar.

 

Í þriðja lagi byggir kærandi á því að í hinni kærðu ákvörðun gætir enn stórfellds misskilnings um gildissvið búvörulaga og afmörkun þeirra gagnvart ákvæðum samkeppnislaga. Kærandi byggir nú sem fyrr á því að verðlagning hans á hrámjólk til KS ásamt Mjólku II hafi verið hluti af samstarfi þessara aðila á grundvelli 71. gr. búvörulaga nr. 99/1993 líkt og ítarlega hefur verið rakið á fyrri stigum þessa máls. Að mati kæranda felur 71. gr. laganna í sér skýra og ótvíræða undanþágu frá ákvæðum samkeppnislaga fyrir afurðastöðvar í mjólkuriðnaði til að sameinast, gera með sér samkomulag um verkaskiptingu milli mjólkursamlaga að því er varðar framleiðslu einstakra mjólkurvara og hafa með sér annars konar samstarf til þess að halda niðri kostnaði við framleiðslu, geymslu og dreifingu mjólkurafurða. Kjósi afurðastöðvar að gera með sér slíkt samkomulag og hafa með sér slíkt samstarf eru því allir þættir viðkomandi samkomulags og samstarfs undanþegnir ákvæðum samkeppnislaga. Líkt og ítrekað hefur verið útskýrt af hálfu kæranda og fram kemur í framlegðar- og verkaskiptasamkomulagi hans við KS, dags. 15. júlí 2008, sem og þeim gögnum málsins sem framkvæmd þess tengjast var miðlun hans á hrámjólk til KS ásamt Mjólku II liður í að bæta tapaða framlegð vegna slíks samkomulags og samstarfs. Það liggur í hlutarins eðli að til þess að unnt sé að gera slíkt samkomulag eða viðhafa slíkt samstarf þarf að tryggja að framlegð aðila þess breytist ekki eftir því hvaða vörur þeir taka að sér að framleiða á grundvelli þess samkomulags um verkaskiptingu eða samstarfs sem talið er hagkvæmast og best til þess fallið að ná þeim markmiðum sem tilgreind eru í 71. gr. búvörulaga. Ef það væri ekki gert væri ekki hægt að koma á slíku samkomulagi með hámarkshagkvæmni að leiðarljósi þar sem aðilar mundu þá samhliða þurfa að taka mið af eigin framlegð og markmið 71. gr. búvörulaga þar með ekki ná fram að ganga. Að mati kæranda stóð vilji löggjafans skýrt til að undanþiggja samstarf af framangreindum toga gildissviði samkeppnislaga án frekari afmörkunar á einstökum þáttum slíks samstarfs eða þeim ákvæðum samkeppnislaga sem undanþágan tekur til. Sá þáttur slíks samstarf sem lýtur að því að annar aðilinn bæti hinum tapaða framlegð í tilefni af verkaskiptingu að því er framleiðslu einstakra mjólkurafurða varðar fellur því að mati kæranda einnig þar undir. Þannig telur kærandi ljóst að ef ákvæði 71. gr. búvörulaga er virt með hliðsjón af lögskýringargögnum og þeim tilgangi, sem því er ætlað að þjóna rúmist samstarf hans við KS ásamt Mjólku II að öllu leyti innan þess. Niðurstaða SE um þetta atriði er byggð á röngum staðhæfingum um staðreyndir málsins og víðtækum ályktunum sem dregnar eru af gögnum þess um framkvæmd samkomulagsins frá 2008 og margvísleg önnur atriði á grundvelli þeirra staðhæfinga. Kærandi telur því niðurstöðu stjórnvaldsins um það hvort verðlagning hans á hrámjólk til KS ásamt Mjólku II hafi verið hluti af samstarfi umræddra aðila á grundvelli 71. gr. búvörulaga og þar með undanþegin samkeppnislögum ranga.

 

Í fjórða lagi telur kærandi að sá markaður sem SE telur að kærandi starfi á sé ranglega skilgreindur, auk þess sem algerlega skortir á að skilgreina þann markað eða þá markaði þar sem áhrif meintrar ólögmætrar háttsemi kæranda eiga að koma fram. Það er algert grundvallaratriði ef staðreyna á ólögmæta verðmismunun að slík niðurstaða verður að byggja á skýrum og afgerandi markaðsskilgreiningum, bæði að því er varðar þá markaði sem hið brotlega fyrirtæki er talið markaðsráðandi á, auk þeirra markaða sem brot kæranda er talið hafa áhrif á. Af fyrrgreindu leiðir einnig að mat SE á stöðu kæranda er rangt.

 

Í fimmta lagi er á því byggt af hálfu kæranda að í hinni kærðu ákvörðun hafi SE ekki tekist sönnun þess að kærandi hafi viðhaft ólögmæta verðmismunun, sbr. c-lið 2. mgr. 11. gr. samkeppnislaga. Ágreiningslaust er að um var að ræða sölu á hrámjólk, þ.e. sömu vöru. Viðskiptavinum kæranda var hins vegar ekki mismunað að nokkru leyti, enda áttu ótengdir viðskiptavinir ekki tilkall til hlutdeildar í framlegð kæranda líkt og KS og Mjólka II. Hin umdeildu viðskipti voru ekki sambærileg og viðskiptavinum var því ekki mismunað með ólíkum skilmálum. Aukinheldur gefa gögn málsins engar vísbendingar um að samkeppnisstaða Mjólku I/Mjólkurbúsins hafi veri veikt vegna viðskipta þeirra við kæranda.

 

Í sjötta lagi er á því byggt af hálfu kæranda að öll upplýsingagjöf til SE í tengslum við rannsókn þá sem leiddi til ákvörðunar nr. 26/2014 hafi verið í samræmi við skyldur félagsins skv. 19. gr. samkeppnislaga. Hið sama eigi við um upplýsingagjöf kæranda í tengslum við þá rannsókn SE sem lauk með ákvörðun nr. 17/2010. Kærandi hefur frá upphafi og í öllum samskiptum við SE, hvort heldur í þessu máli eða öðrum, sýnt fullan samstarfsvilja. Frá upphafi hefur verið á því byggt af hálfu kæranda að verðlagning fyrirtækisins til KS og Mjólku II hafi verið hluti af samstarfi þessara aðila á grundvelli 71. gr. búvörulaga og eðli samstarfsins var lýst ítarlega. Í málatilbúnaði kæranda hefur komið skýrt fram að miðlun hrámjólkur til KS ásamt Mjólku II á innvigtunarverði hafi verið hluti af samstarfi þessara aðila á grundvelli 71. gr. búvörulaga og liður í að jafna mun á framlegð fyrirtækjanna vegna þeirrar verkaskiptingar sem komið var á þeirra á milli með umræddu samstarfi. SE óskaði hins vegar aldrei eftir frekari upplýsingum eða gögnum um umrætt samstarf aðila og kærandi var því í góðri trú  um að stjórnvaldið teldi þær upplýsingar og þau gögn sem látin voru í té fullnægjandi í því sambandi. Kærandi telur umfjöllun SE um þennan þátt málsins gefa ranga mynd af upplýsingagjöf kæranda í tengslum við rannsókn þess máls er lauk með ákvörðun nr. 26/2014. Niðurstaða SE um meint brot kæranda gegn 19. gr. samkeppnislaga er því röng.

 

Í sjöunda lagi telur kærandi slíkar aðstæður vera uppi í máli þessu að ekki skuli gerð sekt í málinu, telji áfrýjunarnefnd samkeppnismála meint brot kæranda sönnuð. Öll gögn málsins sýna að kærandi taldi starfsemi sína vera samþýðanlega ákvæðum búvörulaga og samkeppnislaga. Komist áfrýjunarnefnd að þeirri niðurstöðu að samstarf aðila hafi fallið utan við heimildir 71. gr. búvörulaga, þá má í öllu falli vera ljóst að réttarreglur voru óskýrar að þessu leyti. Sú staðreynd að mál þetta hefur í tvígang verið til rannsóknar hjá SE staðfestir þennan óskýrleika og það mat áfrýjunarnefndar samkeppnismála í hinu fyrra máli, að rannsaka þyrfti sérstaklega samstarf aðila og hvernig það var framkvæmt, þannig að unnt yrði að slá föstu hvort undanþága 71. gr. búvörulaga ætti við, leiða að mati kæranda til sömu niðurstöðu. Í öllu falli telur kærandi að framangreint eigi að leiða til verulegrar lækkunar á stjórnvaldssekt í málinu.

 

Í áttunda lagi mótmælir kærandi því að með hinni kærðu ákvörðun séu honum sett fordæmalaus skilyrði í rekstri sínum varðandi viðskipti með hrámjólk. Kærandi fékk hvorki gætt andmæla né hefur SE rannsakað með viðhlítandi hætti víðtæk áhrif nefndra skilyrða. Þá telur kærandi ljóst að SE bresti valdheimildir til setningar hlutaðeigandi skilyrða. Hvað sem því líður þá telur kærandi allt að einu að nefnd skilyrði séu með öllu óþörf og gangi til muna lengra er nauðsyn krefur. Að því virtu ber að fella 2. tölulið ákvörðunarorða hinnar kærðu ákvörðunar brott í heild sinni.

 

 

Fleiri vörunýjungar

 

Aðstoð

Hvernig getum við aðstoðað?