Sérstaða íslenskrar kúamjólkur

Niðurstöður rannsókna sem birtar voru 7.maí 2003 sýna að sérstaða íslenskrar kúamjólkur er meiri en fyrst var talið. 

Rannsóknarstofa í næringarfræði við Háskóla Íslands og Landspítala Íslands – Háskólasjúkrahús kynnti í gær niðurstöður úr nýrri rannsókn á kúamjólk. Þar segir að samsetning íslensku kúamjólkurinnar hafi í för með sér lægra nýgengi sykursýki af gerð 1 hér á landi  en þekkist í nágrannalöndunum.

Segir í niðurstöðunum að íslenska kúamjólkin sé lík þeirri finnsku, eins og hún var fyrir 40-50 árum. Sú mjólk er síðan talin hafa breyst vegna kynbóta á kúm.

Í niðurstöðunum segir að þessi þróun eða breyting á samsetningu mjólkurinnar gæti tengst aukinni tíðni ákveðinna sjúkdóma í þessum löndum. Samsetning mjólkurinnar getur einnig stuðlað að eða komið í veg fyrir sjúkdóma eins og ofnæmi.

„ß-laktóglóbúlín [ákveðin tegund mjólkurpróteina] er öðruvísi samsett í íslensku mjólkinni heldur en allri annarri norrænni mjólk sem stendur neytendum til boða. Það getur verið spennandi í tengslum við rannsóknir á ofnæmi. Það þarf þó að rannsaka mikið betur. Síðan eru dýrarannsóknir sem benda til þess að ákveðin niðurbrotsefni frá þessum próteinum geti lækkað blóðþrýsting,“ sagði Inga Þórsdóttir, prófessor í næringarfræði við HÍ.

Bæta þarf úr járnskorti

Í rannsóknunum hefur einnig komið fram að aðgerða sé þörf til að bæta úr járnskorti og koma í veg fyrir blóðleysi meðal ungra barna. Segir í niðurstöðunum að þróa þurfi sérvöru, svokallaða stoðmjólk, fyrir 6–24 mánaða gömul börn til að bæta járnbúskap. Varan ætti að líkjast sambærilegum erlendum vörum, en vera unnin úr íslensku hráefni.

Í ljós kom að sérstaða íslensku kúamjólkurinnar er meiri en hvað varðar samsetningu þeirra próteina sem skoðuð voru í fyrri rannsóknum. Þá er meira af n-3 fitusýrum og minna af n-6 í íslenskri en erlendri mjólk, en það er talið hafa jákvæð heilsufarsleg áhrif.

Útreikningar sýna að samsetning kúamjólkur á Norðurlöndum hefur breyst undanfarna áratugi, eins og sést á finnsku mjólkinni. Breytileikinn á meðal annars við um samsetningu mjólkurpróteina. Telja Inga og Bryndís Eva Birgisdóttir, sem að rannsókninni stóðu, að rannsaka þurfi þýðingu þessarar sérstöðu íslensku mjólkurinnar til að kanna hvernig samsetning mjólkur getur best orðið frá heilsufarslegu sjónarmiði.

Segir í niðurstöðunum að breytingar á íslensku kúnni, sem geti leitt til þess að samsetning mjólkurinnar breytist, séu varhugaverðar og geti haft neikvæð áhrif á heilsufar þjóðarinnar. Hér á landi hafa kýr ekki verið kynbættar með erlendum kúakynjum.

Í niðurstöðuskýrslu segir einnig að rannsóknir á efnasamsetningu mjólkur geti sýnt fram á meiri eða minni líkur á algengum kvillum eins og t.d. háþrýstingi. Segir að þar sem flest bendi til að samsetning íslensku mjólkurinnar hafi jákvæð heilsufarsleg áhrif, gefi það þjóðinni forskot í rannsóknum á þessum þáttum og telja þær Inga og Bryndís niðurstöðurnar gefa landinu einstaka möguleika til þess að skoða mjólkina betur.

Að lokum segir í niðurstöðunum að hérlendis sé nú greinilegur vilji fyrir sem mestri og bestri þekkingu á þessu sviði og hafa niðurstöður rannsóknarstofu í næringarfræði auk þess vakið mikinn alþjóðlegan áhuga. Rannsóknin fékk fjármagn af fjárlögum ríkisins.

Þessi grein birtist í Morgunblaðinu 7.maí 2003.

Í greininni stendur að það þurfi að koma stoðmjólk á markað, en hún kom á markað í apríl 2003. (Upplýsingar um Stoðmjólkina og síða hennar.)

Fleri heilsugreinar

 

Aðstoð

Hvernig getum við aðstoðað?