Mjólk er góð vörn gegn beinþynningu

Þó mjólk sé almennt mjög næringarrík felst sérstaða mjólkurmatar aðallega í því að vera ein besta uppspretta kalks sem völ er á. Kalk er einnig að finna í grænmeti, heilum kornvörum og smáfiski þar sem beinin eru borðuð með, en þessi matvæli veita þó mun minna kalk en mjólkurvörur. Í landskönnun á mataræði Íslendinga frá árinu 2002 sést að tæp 70% af kalkneyslunni kemur frá mjólkurvörum (ostar meðtaldir). Mjólkursykur (laktósi) eykur einnig nýtingu á kalki úr þörmum og má því með sanni segja mjólkurvörur besta kalkgjafann. 
Magn kalks í líkamanum er í heildina rúmlega 1 kg og er 99% alls kalkforða líkamans að finna í beinum. Bein er lifandi vefur þar sem sífellt á sér stað niðurbrot og uppbygging.  Framan af ævinni er uppbygging beina í fyrirrúmi, bein þéttast og styrkjast og er hámarksbeinstyrk eða -beinþéttni náð um eða upp úr tvítugu þegar við höfum náð fullum vexti.  Síðan fer beinmassi að minnka og beinin gisna smám saman, mishratt eftir einstaklingum.  Hjá sumum verður þessi beingisnun veruleg og er þá talað um að viðkomandi sé með beinþynningu.  Konum er mun hættara við beinþynningu en körlum, meðal annars vegna þess tiltölulega hraða niðurbrots á beinvef sem verður í nokkur ár eftir tíðahvörf þegar ekki nýtur lengur við þeirra verndandi áhrifa sem kvenhormónið estrógen hefur á beinagrindina, en framleiðsla þess minnkar mikið við tíðahvörf.  Miklu máli skiptir að ná sem mestri beinþéttni á unglingsárum og reyna svo að halda þeirri beinþéttni út ævina. Mataræði er mikilvægur þáttur í forvörnum gegn beinþynningu og er mjólkin þar fremst í flokki þar sem hún er aðalkalkgjafi fæðunnar. D-vítamín er einnig mikilvægur þáttur beinverndar og vinnur náið með kalki í líkamanum. D-vítamín er samt óvíða að finna í matvælum, en helsta uppspretta þess og nánast eina er lýsi. Lýsi er notað af um það bil fjórðungi Íslendinga, en nú er D-vítamíni bætt í ýmsar mjólkurvörur, svo sem Fjörmjólk. Þessi næringarefni er mikilvægt að fá alla ævina, á barnsaldri og unglingsárum til að ná hámarksbeinþéttni og eftir það til að  fyrirbyggja beingisnun.
Íslensku ráðleggingarnar um inntöku kalks hljóða upp á 800 mg/dag fyrir börn frá eins árs aldri. Frá 10-17 ára eru ráðleggingarnar 1000 mg/dag, sem og fyrir þungaðar konur og með barn á brjósti. Annars eru ráðleggingarnar 800 mg á dag fyrir fullorðna. Í nýrri íslenskri rannsókn á mataræði 9 og 15 ára barna og unglinga kemur fram að tæplega helmingur 15 ára stúlkna nær ekki ráðlögðum dagskammti í kalki og ennfremur er D-vítamínneysla flestra þeirra langt undir RDS, en D-vítamín er mikilvægt fyrir upptöku kalks. Í ljósi þess að unglingsárin eru mikilvægustu beinmyndunarárin og að konum er hættara við beinþynningu en körlum, er afar mikilvægt að snúa þessari þróun við hjá unglingsstúlkum og almennt að tryggja næga kalk- og D-vítamínneyslu barna og unglinga.  Fyrir ungling myndu tvö glös af undanrennu eða Fjörmjólk og  17% ostur ofan á tvær brauðsneiðar fullnægja áætlaðri dagsþörf kalks, og ein teskeið af lýsi myndi fullnægja D-vítamínþörf. Þess má geta að ef ætlunin væri að fá sama magn af kalki eingöngu úr brauðmeti þyrfti að borða tæp 2 kílógrömm, eða 67 brauðsneiðar, og af kartöflum myndi þurfa 30 kílógrömm til að ná upp í ráðlagðan dagskammt af kalki.


Ítarefni

Ráðlagðir dagskammtar 2005. Lýðheilsustöð-Manneldisráð 2005.
http://www.lydheilsustod.is/media/manneldi/fraedsla/RDS05_leidr.pdf

Könnun á mataræði Íslendinga 2002. Helstu niðurstöður. Rannsóknir Manneldisráðs Íslands V. Lýðheilsustöð 2003.

Inga Þórsdóttir og Ingibjörg Gunnarsdóttir. Hvað borða íslensk börn og unglingar? Könnun á mataræði 9 og 15 ára barna og unglinga 2003-2004. Rannsóknastofa í næringarfræði við Háskóla Íslands og Landspítala-háskólasjúkrahús. Lýðheilsustöð og rannsóknastofa í næringarfræði 2006.

Heimasíða Lýðheilsustöðvar
www.manneldi.is

Næringarefnatöflur – upplýsingar um magn ýmissa næringarefna í mjólkurafurðum
http://www.matis.is/media/utgafa//Naering_mjolk.pdf

Black RE, Williams SM, Jones IE, Goulding A. Children who avoid drinking cow milk have low dietary calcium intakes and poor bone health. Am J Clin Nutr 2002;76:675-80.

Kalkwarf HJ, Khoury JC, Lanphear BP.Milk intake during childhood and adolescence, adult bone density, and osteoporotic fractures in US women. Am J Clin Nutr 2003;77:257-65.

Fisher JO, Mitchell DC, Smiciklas-Wright H, Mannino ML, Birch LL. Meeting calcium recommendations during middle childhood reflects mother-daughter beverage choices and predicts bone mineral status. Am J Clin Nutr 2004;79:698-706.

Rockell JE, Williams SM, Taylor RW, Grant AM, Jones IE, Goulding A.
Two-year changes in bone and body composition in young children with a history of prolonged milk avoidance. Osteoporos Int 2005;16:1016-23. Epub 2004 Nov 23

Fleri heilsugreinar

 

Aðstoð

Hvernig getum við aðstoðað?