Mjólk er eitt næringarríkasta matvæli sem völ er á

Mjólk er eitt næringarríkasta matvæli sem völ er á frá náttúrunnar hendi og inniheldur hún í ríkum mæli 14 af 18 mikilvægustu vítamínum og steinefnum sem líkaminn þarf á að halda. Til marks um það kemur fram í síðustu landskönnun á mataræði Íslendinga á aldrinum 15-80 ára frá 2002, að 2/3 af öllu kalki sem neytt er koma úr mjólkurvörum og ostum. Um 40% af B2-vítamíni og ¼ af B12-vítamíni koma úr mjólk og ostum. Einnig er mjólk rík af öðrum B-vítamínum og steinefnum. Hún er og mikilvægur joðgjafi, jafnvel mikilvægari en sjávarfang í ljósi minnkandi neyslu þess. Í landskönnuninni 2002 komu tæp 40% af heildarneyslu joðs frá mjólk og ostum. Einnig er mjólk afskaplega rík af öðrum mikilvægum steinefnum, eins og magnesíum, kalíum, sinki og auðvitað kalki, en sérstaða mjólkur hefur einmitt falist í hversu góður kalkgjafi hún er. Um mikilvægi kalks fyrir bein og tennur þarf ekki að fjölyrða, en nýlegar niðurstöður rannsókna varðandi möguleg verndandi áhrif kalks gegn offitu eru einnig mjög athyglisverðar.
Í nýútkomnum ráðleggingum um mataræði og næringarefni á vegum Lýðheilsustöðvar er lögð áhersla á næringargildi mjólkur og mikilvægi hennar fyrir beinin. Það er að sönnu mikilvægt að sporna við neikvæðri þróun mjólkurneyslu, sérstaklega hjá ungu fólki, sem á hugsanlega að hluta til rætur í mikilli aukningu í gosneyslu yngra fólks á undanförnum árum og áratugum. Nú er svo komið, skv. niðurstöðum síðustu landskönnunar, að ungar stúlkur ná ekki upp í ráðlagða dagskammta af kalki, sem er afar óheppilegt, þar sem uppbygging beina er í hámarki á unglingsárum og fyrstu fullorðinsárum.


Ítarefni

Ráðleggingar um mataræði og næringarefni fyrir fullorðna og börn frá tveggja ára aldri. Lýðheilsustöð 2006.

Könnun á mataræði Íslendinga 2002. Helstu niðurstöður. Rannsóknir Manneldisráðs Íslands V. Lýðheilsustöð 2003.

Heimasíða Lýðheilsustöðvar
www.manneldi.is

Næringarefnatöflur – upplýsingar um magn ýmissa næringarefna í mjólkurafurðum
http://www.matis.is/media/utgafa//Naering_mjolk.pdf

Fleri heilsugreinar

 

Aðstoð

Hvernig getum við aðstoðað?