Dregur íslensk mjólk úr líkum á sykursýki?

Grein úr MS-fréttum, nóvember 1998.

Niðurstöður nýrra rannsókna á sambandi sykursýki og fæðu benda til þess að mjólk úr íslenskum kúm gæti verið æskilegri en afurðir annarra kúakynja. Markaðsnefnd mjólkuriðnaðarins hefur tekið þátt í að styrkja og hafa samvinnu um ákveðna þætti rannsókna dr. Ingu Þórsdóttur, prófessors, þar sem hún er að kanna jákvæða sérstöðu íslenskrar kúamjólkur í þessu samhengi. Rannsóknirnar, sem eru unnar í samvinnu við erlenda aðila, eru einnig styrktar af Rannsóknaráði Íslands.
Dr. Inga Þórsdóttir, prófessor í næringarfræði við Háskóla Íslands, hefur sl. 15 ár tekið þátt í starfi evrópsks hóps fræðimanna við rannsóknir á sykursýki og næringu. Doktorsverkefni Ingu fjallaði um mataræði sykursjúkra og hvernig best væri að hafa stjórn á blóðsykurshækkunum, en áhugi hennar beinist nú aðallega að því hvernig megi með mataræði minnka líkur á eða fyrirbyggja sykursýki. Frá árinu 1997 hefur Markaðsnefnd mjólkuriðnaðarins tekið þátt í að styrkja ákveðinn verkefnislið í rannsóknum Ingu. Verkefnið er hluti rannsóknarverkefnisins „Samband milli mataræðis og tíðni sykursýki“. Þar er sérstaklega átt við evrópskan breytileika í tíðni sykursýki og breytileika í tíðni fylgikvilla sykursýki. Á bak við rannsóknarverkefnið stendur hópur evrópskra vísindamanna með þátttakendum frá 7 löndum, en undirbúningi rannsóknarinnar hefur verið stjórnað héðan.
Insúlínháð sykursýki (Insulin dependent diabetes mellitus, IDDM) er sá sjúkdómur sem er í örustum vexti meðal vestrænna þjóða. Ekki er aðeins að tilfellunum fjölgi hlutfallslega ört, heldur eru það sífellt yngri og yngri börn sem fá sykursýki sem þau þurfa að glíma við alla ævi. Sykursýki barna, eða insúlínháð sykursýki, á rætur að rekja til skertrar insúlínframleiðslu í briskirtlinum. Vegna insúlínskorts vinnur líkaminn illa úr sykri og hlutfall sykurs í blóði og þvagi verður óeðlilega hátt. Rannsóknirnar hafa margar hverjar miðað að því að finna hvað kveikir eða vekur sykursýki hjá þeim sem eru erfðafræðilega líklegir til þess að fá sjúkdóminn. Svo virðist sem ákveðnar fæðutegundir (þ.e. ákveðin efni í fæðu) virki eins og kveikja á sjúkdóminn hjá þeim sem eru innan áhættuhópsins. Í raun gera arfbundnir þættir það mögulegt fyrir umhverfið að valda sjúkdómnum.
Mjólk eða þurrmjólk, unnin úr kúamjólk, eru venjulega fyrstu fæðutegundirnar sem börn eru vanin á þegar hætt er að gefa brjóstamjólk, þ.e. ef hún hefur verið notuð. Því hefur kúamjólkin verið grunuð um að vera ein af þeim fæðutegundum sem fela í sér umræddan vaka. Að auki hafa fundist greinileg tengsl á milli þjóða sem neyta mikillar mjólkurfæðu og glíma við hátt hlutfall insúlínháðrar sykursýki. Því var full ástæða til þess að rannsaka möguleg tengsl á milli sykursýki og mjólkurfæðu; hvað gæti myndað slík tengsl og hvort mögulegt er að hafa áhrif á þau með einum eða öðrum hætti.
Í erlendum rannsóknum hafa verið skoðuð prótein í kúamjólk og settar fram tilgátur um tengsl við sykursýki. Þá hafa verið skoðuð prótein sem fyrirfinnast, eftir því sem best er vitað, í öllum tegundum mjólkur. Þessi tengsl hafa síðan ekki staðist nákvæmar rannsóknir og er það í samræmi við þá staðreynd að sykursýki er sjaldgæf hérlendis, meðal þjóðar sem drekkur mikla mjólk. Rannsóknirnar hafa hins vegar ekki fyrr en nýlega beinst að því að kúamjólk geti verið breytileg og innihaldið mismunandi mikið af einstökum próteinum.
Í nýlegum rannsóknum á dýrum á Nýja-Sjálandi tókst að finna tengsl ákveðins próteinhluta í kúamjólk og sykursýki í tilraunadýrum. Þessi próteinhluti er talinn líklegur til þess að vekja svörun í ónæmiskerfinu sem leiðir til skemmda á ákveðnum frumum í brisi. Slíkar skemmdir í brisi skerða insúlínframleiðslu og leiða þar með til sykursýki. Hugsanlega er hér komin skýring á tengslum mjólkurneyslu og sykursýki.
 Ef niðurstöður þessara rannsókna eru skoðaðar í samhengi við tölur um ástand mála á Íslandi, kemur ýmislegt í ljós. Þrátt fyrir að Íslendingar neyti talsvert mikillar mjólkurfæðu í samanburði við aðrar vestrænar þjóðir, þá er tíðni sykursýki (barnasykursýki) mun lægri hérlendis en hjá erfðafræðilega skyldum þjóðum, þar sem sjúkdómurinn er að færast mjög ört í aukana. Svo virðist sem Íslendingar hafi einhvern verndarþátt gegn sykursýki sem er að öllum líkindum ekki erfðafræðilegur. Þetta leiðir rannsóknirnar að sérstöðu íslenskrar kúamjólkur og þá er nauðsynlegt að greina erfðafræðilega eiginleika íslenska kúakynsins og komast að því að hvaða leyti það er frábrugðið því erlenda.
Stefán Aðalsteinsson, erfðafræðingur og búvísindamaður, hefur rannsakað erfðavísa í íslenskum kúm. Samkvæmt niðurstöðum hans ætti íslenska mjólkin að innihalda mjög lítið af hinum „óæskilega“ próteinhluta og er hún þar með síður líkleg til að valda sykursýki. Niðurstöður allra þessara rannsókna hafa falið í sér jákvæðar fréttir og staðfestingu á ágæti íslenskrar mjólkur. Þær eru því svo sannarlega fagnaðarefni, jafnt fyrir framleiðendur sem neytendur.

Fleri heilsugreinar

 

Aðstoð

Hvernig getum við aðstoðað?