Beinvernd

Fyrirlestur Ólafs Ólafssonar, fyrrverandi landlæknis, sem hann flutti í Perlunni á Alþjóðlega beinverndardaginn, hinn 20. október 1999. 

 

Beinþynning hefur aukist verulega í vestrænum löndum og í kjölfar þessa kvilla hefur beinbrotum fjölgað mikið. Í dag er haldið upp á Alþjóðlega beinverndunardaginn. Það vekur óneitanlega mikla athygli að beinþynning og beinbrot hafa aukist langmest í velferðarlöndum og líklega mest á Norðurlöndum, þar á meðal á Íslandi. En þar eru orsakir þessarar þróunar, kalkskortur, reykingar, kynhormónaskortur, hreyfingarleysi, erfðir og sennilega er tími tíðahvarfa varasamur.
Við höfum blásið til forvarnaaðgerða af þessu tilefni. Svo virðist sem áhugi manna sé ekki eins mikill og hann var þegar við hófum aðgerðir gegn æða- og hjartasjúkdómum og krabbameini. Minna fé hefur fengist til athafna en þegar tekist var á við forvarnir gegn krabbameini og hjartasjúkdómum. Ég kann ekki gjörla skil á þessu fyrirbæri, en óneitanlega kemur í huga að um er að ræða beinsjúkdóm sem í sjálfu sér er ekki lífshættulegur – þó að afleiðingin geti verið örorka. Annað sem mér dettur í hug er að aðallega er litið á sjúkdóminn sem kvennasjúkdóm! Menn gleyma því að bein eru iðandi af lífi, sannkölluð orkuveita líkamans. Mergurinn er ómissandi.
Nú! eftir stendur að kalkskortur er þýðingarmikil orsök beinþynningar. Hvaðan fáum við kalk? Jú, úr mjólkurvörum og grænmeti.
Nú hefur dregið úr mjólkurneyslu meðal margra í menningarríkjum. Aðrir drykkir keppa við mjólkina. Mjólkin hefur fengið illt orð á sig vegna umræðu um „kólesterólhættu“. Vel getur verið að minnkandi kalkneysla sé að verulegu leyti orsök beinþynningar í menningarríkjum og í ofanálag hreyfingarleysi. Við höfum ekki eldri rannsóknum úr að moða. FAO (Matvæla- og landbúnaðarstofnun Sameinuðu þjóðanna) ráðleggur nú börnum að drekka meiri mjólk en áður. Í einu glasi af mjólk fær barnið 50–70% af sólarhringskalkþörf. Þar af leiðandi nægja 2 glös daglega.
Ég hef fundið nokkrar greinar í viðurkenndum lækna- og næringartímaritum, en í þeim kemur fram að konur á aldrinum 40–75 ára, sem hafa drukkið mjólk daglega frá barnsaldri, hafa betri bein en þær sem forðast mjólk.
Nú er hægt að fá fituminni mjólk, t.d. léttmjólk. Ég held að dagleg mjólkurdrykkja geti haft fyrirbyggjandi áhrif gegn beinþynningu. En auk þess verður fólk að tileinka sér hreyfingu og heilnæmt líferni.
Nú þarf að halda kyndlinum logandi. Tekist hefur að stofna beinverndarfélög í Reykjavík, og á Vestfjörðum, Norðurlandi, Suðurlandi og Austurlandi. Við höfum fengið gott samband við félög aldraðra og þar hefur verið opnuð skrifstofa í samvinnu við Landlæknisembættið. Beinvernd hefur hafið víðtækt samstarfsverkefni við mjólkuriðnaðinn og í dag verður undirritaður samstarfssamningur til 3ja ára milli Beinverndar og Markaðsnefndar mjólkuriðnaðarins. Kynningarátakið gengur undir vígorðinu „hollusta styrkir bein“ og um þessar mundir verður kynntur bæklingur sem fjallar um beinvernd og beinþynningu, orsakir hennar og afleiðingar – og síðast en ekki síst hvernig sporna má gegn henni.

Fleri heilsugreinar

 

Aðstoð

Hvernig getum við aðstoðað?