Beinþynning - þögli faraldurinn

Erindi sem dr. Gunnar Sigurðsson flutti í Perlunni á Alþjóðlega beinverndardaginn, hinn 20. október 1999.  

Á síðasta áratug hefur þekking okkar á eðli og orsökum beinþynningar aukist verulega, tækni hefur komið fram til að greina beinþynningu áður en beinbrot verða og jafnframt hafa verið framleidd mikilvirk lyf til meðhöndlunar á beinþynningu á háu stigi. Einnig hefur það orðið ljósara en áður hversu miklum búsifjum afleiðingar beinþynningar valda þjóðfélaginu og einstaklingunum. Á Íslandi má ætla að árlega brotni a.m.k. eitt þúsund einstaklingar af völdum beinþynningar, þ.e.a.s. þeir brotna við lítinn eða engan áverka sem eðlileg bein gera ekki. Það eru aðallega þrenns konar brot sem tengjast beinþynningu, framhandleggsbrot, hryggsúlubrot og mjaðmabrot. Árlega verða um 300 mjaðmabrot á Íslandi og hvert þeirra kostar þjóðfélagið um 1,5 milljónir króna. Ætla má að að minnsta kosti 200 þessara mjaðmabrota verði við lítinn áverka. Því má gróft áætla að í heild sinni kosti beinbrot af völdum beinþynningar þjóðfélagið a.m.k. hálfan milljarð króna árlega. Helmingur fimmtugra kvenna á eftir að hljóta framhandleggsbrot, hryggsúlubrot eða mjaðmabrot, eitt eða fleiri. Enda þótt þessi brot séu fátíðari meðal karla, fer þessum brotum fjölgandi meðal þeirra. Beinþynning eykst með aldri og fyrirsjáanlegt er að á næstu áratugum fari þessum brotum verulega fjölgandi og að kostnaðurinn verði samsvarandi, með auknum fjölda aldraðra. Því er til mikils að vinna ef unnt er að draga úr tíðni þessara brota.

Hollusta styrkir bein
Mikilvægi góðrar næringar, sérstaklega kalks og D-vítamíns, hefur orðið ljósara þar sem eðlilegur beinþroski barna og unglinga er annars vegar og viðhald á eðlilegu beinmagni fullorðinna, sérstaklega aldraðra. Kalkneysla Íslendinga (80% kemur úr mjólkurvörum) er að jafnaði góð, þótt rannsóknir sýni að hluti þeirra neyti talsvert minna en þeirra 1000 mg af kalki á dag sem mælt er með og geti þannig stefnt beinum sínum í hættu. D-vítamín er nauðsynlegt til að tryggja að kalkið úr fæðunni nýtist. D-vítamín fáum við fyrir áhrif sólarljóss á húð og úr fæði. Íslenskar rannsóknir hafa glögglega sýnt að D-vítamín í blóði Íslendinga er ónógt yfir veturinn, nema neytt sé aukalega lýsis eða D-vítamíns. Vel má vera að þetta eigi sinn þátt í því að mjaðmabrot eru mun algengari hér en sunnar í Evrópu. Þessar niðurstöður gefa því fulla ástæðu til að mæla með því að bæta D-vítamíni í mjólk og mjólkurafurðir hér á landi, a.m.k. að vetrinum.

Hreyfing og alhliða líkamsáreynsla hefur einnig reynst skipta verulegu máli til eðlilegs þroska og viðhalds beina. Reykingar virðast gera það gagnstæða. Rannsóknir síðustu ára benda því eindregið til að hollusta styrki bein. Erfðaþættir ráða þó miklu um beinmagn einstaklinganna eins og sést á því að beinþynning liggur oft í ættum. Einnig geta vissir sjúkdómar valdið beinþynningu. Undir þeim kringumstæðum getur þurft að grípa til annarra ráða. Á síðustu árum hafa verið þróuð lyf (hormónalyf og ýmis önnur lyf) sem vernda beinin gegn beintapi sem ella verður með árunum og sumir einstaklingar mega ekki við. Þessi lyf hafa vissulega sannað gagnsemi sína, en aðeins takmarkaður hópur þarfnast þeirra. Beinþynning er einkennalaus þar til beinbrot verða. Því er mikilvægt að greina beinþynningu á fyrstu stigum til að grípa inn í með forvörnum þar sem hollusta gegnir lykilhlutverki. Þróuð hafa verið tæki til að greina beinþynningu á öllum stigum hennar. Aðgengi fólks til greiningar á beinþynningu með slíkum tækjum hefur verið tryggt í Reykjavík og á Akureyri og sú þjónusta ætti að geta nýst öllum landsmönnum. Við getum því gert margt til að fyrirbyggja og meðhöndla beinþynningu og fræðsla hér að lútandi skiptir höfuðmáli í baráttunni við þennan þögla faraldur.

Fleri heilsugreinar

 

Aðstoð

Hvernig getum við aðstoðað?