Áhersla á léttar og sykurminni mjólkurafurðir hjá MS

Á undanförnum árum hefur verið lögð sérstök áhersla á þróun léttra og sykurminni afurða hjá MS. Til marks um það má nefna að á tveggja ára tímabili, frá hausti 2004 til haustsins 2006, hafa komið 28 ný vörunúmer frá fyrirtækinu, og af þeim eru tæp 90% létt og þrjár af hverjum fjórum nýjum vörunúmerum eru ýmist sykurskert eða án viðbætts sykurs.


Vöruþróunarstefna með tilliti til hollustu og heilbrigðis neytenda

Í vöruþróunarstefnu MS er annars vegar reynt að mæta þörfum og óskum viðskiptavina um hollustu afurða og hins vegar ráðleggingum Lýðheilsustöðvar um mataræði. MS hefur í sókn sinni á markaði í auknum mæli undanfarið lagt áherslu á þróun og sölu afurða sem uppfylla þarfir ákveðinna neytendahópa. Með því að bjóða næringarríkar og hollar matvörur sem lagaðar eru að þörfum einstakra markhópa hefur náðst góður árangur á markaði og jafnframt verið stuðlað að betra heilbrigði, heilsu og vellíðan neytenda.
Nokkur dæmi um slíkar vöruflokka eru:

Mjólkurvörur mikilvægar í baráttunni við offitu
Offita er vaxandi vandamál og ein stærsta ógn við lýðheilsu til framtíðar. Nýlegar rannsóknir benda til að mjólkurneysla hafi verndandi áhrif gegn offitu, til að mynda hefur verið sýnt fram á að þeir sem neyta 3-4 skammta af mjólk eða mjólkurvörum daglega  eru að jafnaði léttari en hinir sem neyta minna magns. Mjólkurneysla hefur farið minnkandi á undanförnum árum og áratugum og ef marka má ofannefndar rannsóknir er mikilvægt að snúa þeirri þróun við og að neytendur viðhaldi góðri neyslu mjólkurafurða. MS hefur lagt áherslu á að mæta þessari þörf á breyttum lífsstíl með því að auka fjölbreytni afurða innan mjólkurvöruflokksins, og meðal annars boðið neytendum hitaeiningarsnauðari valkosti með þróun á léttum afurðum, bæði fitu- og sykurminni.

Söluþróun léttra og sykurminni mjólkurafurða

Aukning í sölu mjólkurafurða á síðustu árum hefur fyrst og fremst verið í þessum svokölluðu léttu lífsstílsafurðum (skyr, léttjógúrt, létt ab o.fl.). Í dag er svo komið að neytendur eiga í öllum helstu vöruflokkum MS um mjög marga valkosti að ræða í  fitu- og sykurminni mjólkurvörum. Eins og fram kom í inngangi þessarar greinar er mikill meirihluti nýjunga frá MS undanfarin ár léttur og sykurskertur/án viðbætts sykurs. Stefnt er að því að halda áfram á þessari braut og þróa í enn meiri mæli léttar og sykurminni afurðir af ýmsu tagi fyrir neytendur.
Á meðfylgjandi grafi má sjá þróun í sölu léttra afurða og bragðbættra afurða án viðbætts sykurs eða sykurskertra á undanförnum árum sem hlutfall af heildarsölu sérvara (þar sem hvít mjólk, þ.e. nýmjólk, léttmjólk, undanrenna og Fjörmjólk er undanskilin). Sala léttra (fituskertra) afurða hefur aukist úr 55% í 66% af heildarsölu sérvara á tímabilinu 2003-2006, eða um 21%, en tæplega þreföld aukning hefur verið í sölu bragðbættra afurða sem eru sykurskertar eða án viðbætts sykurs á sama tímabili, eða úr tæplega 10% í 27% af heildarsölu.


Hlutfall léttra afurða og bragðbættra afurða án viðbætts sykurs eða sykurskertra af heildarsölu sérvara frá 2003-ág. 2006.

Heilsubætandi mjólkurafurðir

MS hefur á undanförnum árum einnig beitt sér í þróun á markfæðisafurðum og bætiefnavörum. Markfæði er skilgreint sem matvæli sem geta hugsanlega bætt heilsu umfram hefðbundin matvæli eða næringarefni. Sem dæmi um markfæði hjá MS má nefna ab-vörur, LGG+, Benecol og LH, meðan Stoðmjólk myndi flokkast sem bætiefnavara. Mikil aukning hefur orðið í sölu á heilsubætandi mjólkurvörum frá MS á undanförnum árum samfara aukinni áherslu á þróun og markaðssetningu þessara afurða hjá fyrirtækinu. Á fimm ára bili, frá 2001-2005 hefur sala þessara afurða aukist um tæp 50%, eins og sjá má á meðfylgjandi grafi. 


Mikil söluaukning hefur verið í heilsubætandi mjólkurafurðum (markfæði og bætiefnavörum) frá MS á síðustu fimm árum.
Grein sem birtist í Matur er mannsins megin (tímariti Matvæla- og næringarfræðafélags Íslands (MNÍ). Höfundur hennar er Einar Matthíasson.

Fleri heilsugreinar

 

Aðstoð

Hvernig getum við aðstoðað?