Sykursýki

Sykursýki er efnaskiptasjúkdómur og er orsök hans óþekkt. Sykursýki greinist í tvær tegundir. Tegund 1 sem stafar af eyðileggingu frumna í brisi sem framleiða insúlín og tegund 2 sem aðallega leggst á eldra fólk og er oft kölluð fullorðinssykursýki. Ein tegund til viðbótar er svokölluð meðgöngusykursýki sem kemur fram á meðgöngu og hverfur yfirleitt við fæðingu. Tegund 2 kemur fram vegna þess að það insúlín sem framleitt er í brisinu nýtist illa og einnig er truflun á starfsemi briskirtilsins.
Aukning hefur orðið á þessum sjúkdómi hjá yngra fólki í kjölfar óæskilegra lifnaðarhátta svo sem offitu og/eða hreyfingaleysis.

Einkenni tegundar 2 eru vægari en tegundar 1 og fólk getur verið með tegund 2 árum saman án þess að vita af því og greinist þá oft fyrir tilviljun.
Einkennin eru fyrst og fremst þorsti, aukin þvaglát, sjóntruflanir, kláði og þreyta. Einnig finna þessir sjúklingar fyrir sinadrætti, náladofa í fingrum og sýkingum í húð. Þó einkennin séu vægari en við tegund 1 þá er það mikill misskilningur að vandamálið sé lítilfjörlegt. Staðreyndin er sú að margir hafa fylgikvilla við greiningu.
Fylgikvillar: Slæm stjórn blóðsykurs hefur alvarlegar afleiðingar aðallega á æðakerfið og hefur þar af leiðandi áhrif á kransæðar, heilaæðar og æðar í fótum. Einnig gætir þessara áhrifa í smáæðum í augum nýrum og taugakerfi. Rannsóknir hafa staðfest að með góðri stjórn á blóðsykrinum má minnka verulega líkur á fylgikvillum.

Meðferð/ráðleggingar: Meðferð við tegund 2 sykursýki beinist fyrst og fremst að mataræði og hreyfingu og er þá jafnvel hægt að komast hjá lyfjagjöf en stundum þarf að gefa töflur eða jafnvel sprautur. Ef þú ert í yfirþyngd þá er fyrsta ráðið að létta sig á skynsamlegan hátt með mataræði og hreyfingu. Oft er miðað við að léttast um 1 kg. á mánuði og þegar kjörþyngd er náð er
mikilvægt að halda kjörþyngdinni. Miklar sveiflur í þyngd eru ekki æskilegar. Hreyfing er einnig mikilvæg og er gjarnan mælt með því að hreyfa sig í a.m.k. 30 mínútur á dag eða 3 klst. á viku. Hreyfing auðveldar líkamanum að vinna úr því insúlíni sem hann framleiðir. Einnig er ráðlagt að láta fylgjast með blóðþrýstingi og kólesteróli.

Heimildir: doctor.is, landlaeknir.is, visindavefur.is

Aðstoð

Hvernig getum við aðstoðað?