Beinþynning

 

Hvað er beinþynning?

Beinþynning er sjúkdómur sem lýsir sér þannig að þéttleiki og gæði beinvefjar minnkar og leiðir til þess að beinagrindin veikist og hætta á beinbrotum eykst, sérstaklega í hrygg, mjaðmagrind og úlnið. Sjúkdómurinn og beinbrotin sem fylgja honum eru ein helsta orsök heilsuleysis og dauðsfalla milljóna manna um allan heim.

Bein eru lifandi vefur sem byggir styrk sinn að stórum hluta á kalki. Beinin byrja að myndast strax á fósturskeiði. Æsku – og unglingsárin skipta sköpum fyrir myndun beinmassa. Á þessum æviskeiðum er nýmyndun beins hraðari en eyðing, sem skapar stærri og þéttari bein. . Þessi þróun heldur áfram fram til um 25 ára aldurs þegar mesta beinmassa er náð.  Beinin endurnýjast þriðja hvert ár í börnum og á 7-10 ára fresti í fullorðinni manneskju.
Heilsusamleg og margbreytileg fæða sem samanstendur af bæði aðal næringarefnunum (próteini, fitu og kolvetnum) og snefilefnum (vítmínum og steinefnum), ásamt nægilegri orku er frumskilyrði fyrir eðlilegri þróun og viðhaldi beinagrindarinnar.
Hnignun beinvefjar hefst yfirleitt eftir fertugt þegar beinvefur hættir að endurnýjast jafnhratt og hann tapast. Hjá konum eykst beinþynning verulega á árunum eftir tíðahvörf þegar framleiðsla á estrógeni stöðvast og beinin hætta að njóta verndar þess. Karlar tapa einnig beinvef eftir fimmtugt en hnignunarhraðinn er hægari en hjá konum. Á þessu æviskeiði hjálpar það að gera varúðarráðstafanir s.s. að tryggja alhliða og heilsusamlegt mataræði sem minnkar hættuna á beinþynningu og beinbrotum af hennar völdum bæði hjá körlum og konum.

Við beinþynningu verður rýrnun á beinvef og styrkur beina minnkar, beinin verða stökk og hætta á brotum við minnsta átak eykst. Beinþynning er algengust í hryggjarliðum, mjaðmarbeini, lærlegg og beinum í framhandlegg og upphandlegg. Talið er að í það minnsta þriðja hver kona hljóti beinbrot vegna beinþynningar einhvern tíma á ævinni en beinþynning er mun algengari meðal kvenna en karla. Á ári hverju má líklega rekja fleiri en 1000 beinbrot til beinþynningar hér á landi.

Allir, bæði konur og karlar, eiga á hættu að verða fyrir afleiðingum beinþynningar síðar á ævinni svo að hver og einn þarf að huga að vernd beina sinna allt frá barnæsku. Reglubundin líkamsáreynsla, nægilegt kalk, sem helst er að finna í mjólkurmat, og D-vítamín í fæðu eða frá sólarljósi skipta máli á öllum aldri.

Kalk er eitt aðal byggingarefni beinagrindarinnar og er nauðsynlegt beinheilsu alla ævi. D-vítamín er einnig nauðsynlegt til myndunar og viðhalds beina vegna þess að það hjálpar til við að vinna kalk úr fæðunni og til að tryggja næga endurnýjun og kalkmyndun í beinvef. Prótein er einnig mikilvægur hluti beinvefs og þar af leiðandi þarf að hafa nóg af því í fæðunni. Með því að „fjárfesta í beinum“ á æsku- og unglingsárum með góðu fæði og lifnaðarháttum verða beinin sterkari og síður fórnarlömb beinþynningar seinna á ævinni

Góð næring, sérstaklega prótein, kalk og D-vítamínrík, er einnig mikilvæg til viðhalds beinmassa hjá fullorðnum og öldruðum.

Áhættuþættir beinþynningar

Kyn: Konur eru í þrefalt meiri hættu á að fá beinþynningu en karlar.  Það er  m.a. vegna þess að hámarks beinþéttni kvenna er minni en karla og eftir tíðarhvörf eykst niðurbot beina til muna hjá konum. Þær þurfa því að huga sérstaklega að mataræði sínu og hreyfingu. Konur sem fara snemma í tíðarhvörf eru í aukinni hættu, svo og konur sem gengist hafa undir legnám.

Aldur: Bein gisna með aldrinum, kvenna mun meira en karla. Beinþynning hefst oft hjá konum eftir tíðahvörf og er beintapið oft mikið fyrsta áratuginn eftir.  Eftir sjötugt er beintapið svipað hjá körlum og konum.

Erfðir: Líklegt er talið að hámarksbeinstyrkur sem næst, sé að hluta til bundinn erfðum og hugsanlega stjórna erfðir einnig beintapi.  Þessi erfðaþáttur er m.a. skýringin á því, að hafi móðir eða faðir fengið beinþynningu, eykur það líkur á að afkomandi fái sjúkdóminn.

Lífsstíll/umhverfi:  Beinin þarfnast bæði næringar og áreynslu til að haldast sterk og heilbrigð.

Næring.  Næring skiptir máli fyrir heilbrigði beina á öllum aldri.  Þess vegna er heilbrigt mataræði mikilvægt. Ýmsar kalkríkar fæðutegundir t.d. mjólk og mjólkurvörur innihalda þau næringarefni sem eru hvað mikilvægust fyrir beinin.  D-vítamín er nauðsynlegt til að kalkið nýtist beinunum. Við fáum D-vítamín úr fæðutegundum eins og lýsi.


Líkamsþyngd/undirþyngd. Konur sem ekki hafa hafa ekki náð að byggja um nægilega mikinn beinmassa eru í meiri hættu á að fá beinþynningu og einnig þær konur sem eru smábeinóttar. Farsælast er að byggja upp beinforða sinn í uppvextinum, allt til þrítugs, og taka síðan upp þráðinn á ný á efri árum.


Hreyfingarleysi. Sýnt þykir að hæfileg hreyfing hefur góð áhrif á öllum aldri, ekki síst meðal eldra fólks. Öll líkamshreyfing og þjálfun virðist vera til góðs en göngur og hreyfing sem felur í sér þungaburð er áhrifaríkast í baráttunni við beinþynninguna. Mikilvægt er að þjálfunin sé reglubundin a.m.k. þrisvar sinnum í viku 15-30 mínútur í senn. Öll hreyfing er betri en engin. Einstaklingur sem hefur þegar hlotið beinbrot eða samfall á hryggjarlið vegna beinþynningar ætti þó ekki að gera æfingar nema í samráði við lækni og sjúkraþjálfara því mikilvægt er að æfingarnar séu rétt framkvæmdar og án álags á þá líkamsstaði sem eru veilir.


Reykingar. Reykingar stuðla að  beinþynningu.


Áfengi. Áfengisneysla í óhófi eykur hættu á beinþynningu.

 

Sjúkdómar: Sjúkdómar sem hafa áhrif á kalkbúskapinn geta valdið beinþynningu.  Þeir eru: ofstarfsemi skjaldkirtils, liðagigt, dreifðir illkynja sjúkdómar í beinagrind eða langvinnir meltingar- eða lifrarsjúkdómar.

 

Lyf: Eftirtalin lyf eru talin geta valdið beinþynningu.
Sykursterar, t.d. prednisolon, notað við asthma og bólgusjúkdómum og flogaveikilyf.

Aðstoð

Hvernig getum við aðstoðað?