Yngsti kúabóndinn ræsti nýja

Þann 25. októrber var formlega tekin í notkun ný og fullkomin vinnslulína til ostagerðar hjá MS Akureyri. Áætlaður kostnaður við vinnslulínuna auk tengdra framkvæmda í húsnæði mjólkurstöðvarinnar, þ.m.t. 300 fermetra viðbyggingu fyrir lager, losar einn milljarð króna. Það voru þau Sara María Davíðsdóttir, bóndi á Torfum og yngsti kúabóndinn á samlagssvæði MS Akureyri, og ostameistarar mjólkurbúsins, Hermann Jóhannsson og Bragi Egilsson, sem formlega ræstu nýju ostalínuna í dag.
Dönsk ostalína
Samið var við danska fyrirtækið SPX um hönnun og smíði á nýju línunni – þ.m.t. ostatönkum og ostapressum – inn í húsnæði MS Akureyri. Um miðjan ágúst var hætt ostaframleiðslu með gömlu vinnslulínunni, sem var meira en tuttugu ára gömul, og í kjölfarið hafist handa við að setja nýju línuna upp. Með henni og skipulagsbreytingum á húsnæðinu aukast afköst í ostaframleiðslu til muna á Akureyri og framleiðslu- og vöruflæði verður á allan hátt betra og markvissara.
Ostagerð hefur alla tíð verið stór þáttur í mjólkurvinnslu á Akureyri – lengstaf undir merkjum Mjólkursamlags KEA, síðan Norðurmjólkur og nú MS. Í ostagerðina fara á bilinu 60-65% af innveginni mjólk á Akureyri, sem á þessu ári er áætluð um 37 milljónir lítra. MS Akureyri er og hefur lengi verið langstærsti ostaframleiðandi landsins með um 40 tegundir osta og tengdra vara.
Átta milljarða fjárfestingar
Einar Sigurðsson, forstjóri Mjólkursamsölunnar, sagði í ávarpi þann 25. október að á undanförnum árum hafi Mjólkursamsalan lagt í um 8 milljarða króna fjárfestingar á núvirði til að endurnýja aðstöðu, tæki og búnað í mjólkuriðnaðinum. „Fyrirtækið er að mestu í eigu íslenskra kúabænda. Mjólkursamsalan er þeirra verkfæri til afurðavinnslu og þjónustu við markaðinn. Ef þessum fjárfestingum væri deilt niður á kúabú landsins næmu þær um um 12 milljónum á hvert bú. Þessar fjárfestingar eru til marks um trú íslenskra bænda á á framtíð íslenskrar matvælaframleiðslu. Með þeim hafa kúabændur náð fram mikilli hagræðingu í vinnslunni. Þessar fjárfestingar eru grundvöllur þess að tekist hefur að lækka árlegan vinnslukostnað í mjólkuriðnaði um meira en 2 milljarða króna. Þær eru því arðbærar fyrir bændur og neytendum í hag. Endurnýjun vinnslustöðva Mjólkursamsölunnar er grundvöllur hagræðingar en líka grundvöllur áframhaldandi vöruþróunar, sem er aðalsmerki Mjólkursamsölunnar. Við munum sjá þess merki í vöruþróun í ostaframleiðslu á næstu árum sem byggir á þeirri traustu undirstöðu sem hefur verið sköpuð með þessum nýja og fullkomna búnaði á Akureyri,“ sagði Einar Sigurðsson.
Þáttaskil í sögu mjólkuriðnaðar á Íslandi
Egill Sigurðsson, stjórnarformaður MS, sagði þegar hann ávarpaði gesti í húsakynnum MS Akureyri þann 25. október, að þessar vikurnar væri að ljúka víðtækri endurskipulagningu og endurnýjun í vinnslustöðvum fyrirtækisins um allt land. „Hér í dag eru þáttaskil í sögu mjólkuriðnaðar og í sögu Mjólkursamsölunnar á Akureyri. Hér er nú ræst fullkomnasta ostavinnsla sem Íslendingar hafa átt. Hún leysir af hólmi tæki sem komin voru á þriðja áratug í aldri. Hér er unnið úr um þriðjungi af heildarframleiðslu mjólkur á Íslandi, um 37 milljón lítrum á ári,“ sagði Egill og bætti við að með stofnun Mjólkursamsölunnar árið 2007 hafi stefnan verið mörkuð í endurskipulagningu mjólkuriðnaðar í þágu neytenda og bænda. Síðan hafi vinnslustöðvum fækkað og þær orðið sérhæfðari. Á sama tíma hafi öll flutningakerfi verið endurnýjuð. „Árangurinn er ótvíræður og mjög mikil hagkvæmni hefur náðst í þessari starfsemi, sem skilað hefur verið til neytenda og bænda. Verð til bænda fyrir hráefni hefur hækkað verulega umfram almennt verðlag í landinu vegna þess að aðföng þeirra hafa hækkað mjög í verði eftir hrunið. Þrátt fyrir það hefur tekist að halda aftur af hækkunum á heildsöluverði til neytenda. Það byggir á þeirri hagræðingu sem náðst hefur í mjólkuriðnaðinum,“ sagði Egill Sigurðsson.
Mikið framfaraskref
Kristín Halldórsdóttir, mjólkurbússtjóri MS Akureyri, sagði að framkvæmdir við nýja ostalínu á Akureyri hafi hafist sumarið 2012. „Þá hófst verklegur undirbúningur, nýjar skilvindur voru teknar í gagnið í nóvember og strax um haustið var tekin endanleg ákvörðun um hvað ostagerðarbúnaðurinn skyldi innihalda, stærð, umfang o.fl. Þá var jafnframt ákveðið að byggja við lagerhúsnæðið til að tryggja að vinnsluflæði yrði sem best. Vinnslusalurinn hefur tekið miklum stakkaskiptum og fengið verulega andlitslyftingu. Glæsileg ostagerðarlína hefur verið endurnýjuð frá a til ö, gerilsneyðingartæki, skilvindur, ostatankar og pressur, söltunarkerfi, lagerkassar fyrir ost, svo það stærsta sé nefnt. Sá búnaður sem við höfum nú tekið formlega í notkun er mikið framfaraskref, jafnvel enn stærra en við síðustu endurnýjun á tækjabúnaði fyrir 22 árum síðan. Okkur telst til að þetta sé í fjórða skipti sem búnaður til ostagerðar er endurnýjaður hér á Akureyri,“ sagði Kristín Halldórsdóttir við formlega ræsingu nýju ostalínunnar.


Kristín Halldórsdóttir mjólkurbússtjóri MS á Akureyri.

 

Fleiri fréttir

 

Aðstoð

Hvernig getum við aðstoðað?