Úrslit í teiknisamkeppni Alþjóðlega skólamjólkurdagsins


Mynd eftir Þuríði Nótt BjörgvinsdótturNýlega voru tilkynnt úrslit í teiknisamkeppni Alþjóðalega skólamjólkurdagsins sem Mjólkursamsalan stóð fyrir meðal nemenda í 4. bekk í grunnskólum landsins. Mikill fjöldi teikninga barst í keppnina en tíu nemendur fengu viðurkenningu fyrir teikningar sínar. Með keppninni vill Mjólkursamsalan vekja athygli á mikilvægu hlutverki mjólkur í daglegu mataræði barna.
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir menntamálaráðherra var formaður dómnefndar en aðrir í dómnefnd voru Guðný Steinsdóttir, Guðríður Halldórsdóttir, Einar Matthíasson og Björn S. Gunnarsson frá MS. 

Mjólkursamsölunni barst mikill fjöldi mynda frá 4. bekkingum í grunnskólum landsins. Erfitt var að velja milli myndanna enda mikið af góðum teikningum sem bárust keppninni. Verðlaun er veitt fyrir þær tíu myndir sem þóttu skara fram úr. Hver verðlaunahafanna fékk 25 þúsund krónur, sem renna í bekkjarsjóð vinningshafana.

Vinningshafarnir eru:
Bjarney Björt Björnsdóttir, Fellaskóla á Fljótdalshéraði; Þuríður Nótt Björvinsdóttir, Fellaskóla á Fljótdalshéraði; Álfey Sól Haraldsdóttir, Hvaleyrarskóla; Eyjalín Harpa, Grunnskóla Hornafjarðar; Andrea Thorsteinsson, Flúðaskóla; Camilla Rós Þrastardóttir Grunnskóla Stykkishólms; Hróbjartur Höskuldsson, Hvassaleitisskóla; Kjartan Tryggvason, Hvassaleitisskóla; Arngrímur Guðmundsson, Hlíðaskóla og Anna Jónína Guðmundsdóttir, Grunnskóla Önundarfjarðar.

Teikningarnar verða notaðar á veggspjöld og annað kynningarefni vegna Skólamjólkurdagsins 2008 og eru aðgengilegar á vef Skólamjólkur.

Alþjóðlegi skólamjólkurdagurinn er haldinn hátíðlegur síðasta miðvikudag í september ár hvert af undirlagi Matvælastofnunar Sameinuðu þjóðanna, FAO. Sífellt fleiri stjórnvöld í löndum heimsins eru að vakna til vitundar um mikilvægi mjólkurneyslu barna og unglinga í skólum. Mjólk er próteinrík og auk þess mikilvæg uppspretta nauðsynlegra vítamína og steinefna í fæðunni. Mjólk með nestisbitanum og hádegismatnum gerir máltíðina fullkomna. Nánast engar máltíðir, án mjólkur eða mjólkurvara, duga til að fullnægja þörf okkar fyrir öll þau næringarefni sem líkaminn þarfnast. Sérstaða mjólkur felst þó fyrst og fremst í því hve góður kalkgjafi hún er og kalk er mikilvægt fyrir byggingu beina. Vart er því hægt að hugsa sér betri og næringarríkari drykk en mjólk til að gefa börnum og unglingum og því full ástæða til að hvetja þau til aukinnar mjólkurneyslu.


Mjólkursamsalan vill með keppninni vekja athygli barna, foreldra og starfsfólks skólanna á mikilvægu hlutverki mjólkur í daglegu mataræði barnanna. Mjólkurdrykkja fer vaxandi í skólum og má það meðal annars rekja til mjólkurkælivéla sem eru í um helmingi íslenskra grunnskóla og njóta mikilla vinsælda meðal barna.

Fleiri fréttir

 

Aðstoð

Hvernig getum við aðstoðað?