Úrslit í jólaleik Gott í matinn

Um miðjan nóvember brugðum við á leik með lesendum uppskriftasíðu Gott í matinn, gottimatinn.is og fylgjendum síðunnar á Facebook og efndum til skemmtilegs uppskriftaleiks í aðdraganda jólanna. Við vorum að leita að uppáhalds jólaeftirrétti hvers og eins enda eru margir sem halda því fram að jólin komi ekki fyrir alvöru nema ef einhver sérstakur eftirréttur er á boðstólnum. Eina skilyrðið fyrir þátttöku í leiknum var að rétturinn innihéldi MS rjóma og svo hvöttum við fólk til að senda okkur sögu réttarins og myndir ef slíkt væri til, en það var þó ekki nauðsyn.

Skemmst er frá því að segja að yfir 100 uppskriftir bárust í keppnina og voru uppskriftirnar og sögurnar sem þeim fylgdu hver annarri skemmtilegri. Dómnefndar beið því erfitt verk en hún komst loks að niðurstöðu og úr varð að uppskrift Andreu Idu Jónsdóttur að súkkulaðimús ömmu Amor varð hlutskörpust og hlaut hún í verðlaun Kitchenaid hrærivél ásamt bökunarformum. Andrea kom til okkar í dag þar sem við afhentum henni vélina og var hún að vonum í skýjunum með vinninginn.

Við leyfum uppskriftinni frá Andreu og sögunni sem fylgdi með að njóta sín hér að neðan og þökkum öllum sem gáfu sér tíma til að senda okkur uppskriftir og sögur kærlega fyrir þátttökuna.

 

 

 

 

 

Súkkulaðimús ömmu Amor með rjóma- og Mascarponetoppi
(fyrir fjóra)
 

Súkkulaðimús:

125 ml nýmjólk
3 msk sykur
¼ tsk instant kaffi sem búið er að merja vel í morteli
180 gr súkkulaðidropar
3 eggjahvítur

Rjómatoppur:
1/4 dolla íslenskur Mascarpone rjómaostur
2 msk nýkreistur appelsínusafi (beint úr appelsínunni er best)
125 ml rjómi
2 msk flórsykur
1 tsk raspaður appelsínubörkur

 

Aðferð:

Súkkulaðimús:

Setjið mjólk, sykur og kaffi í pott og hitið við vægan hita þar til mjólkin hefur hitnað og sykurinn leyst upp, látið mjólkina alls ekki sjóða. Leyfið mjólkurblöndunni að kólna í um 5 mínútur (mjög mikilvægt).

Setjið súkkulaðidropana í blandara eða matvinnsluvél og hellið mjólkurblöndunni yfir. Stillið á mesta  kraft þar til öllu hefur verið blandað vel saman.

Bætið því næst eggjahvítum saman við og blandið á mesta krafti í um 1 mínútu eða þar til súkkulaðimúsin er orðin létt.

Skiptið súkkulaðimúsinni í 4 litlar skálar, setjið plastfilmu yfir og inn í ísskáp í 3 klst.

 

Rjómatoppur:

Hrærið saman Mascarpone rjómaostinum og appelsínusafanum í hrærivél þar til vel blandað og mjúkt. Bætið rjómanum, flórsykri og röspuðum appelsínuberkinum við og þeytið þar til það myndast léttir toppar, um 1 mínúta. Best er að gera rjómatoppinn rétt áður en á að bera súkkulaðimúsina fram eða setjið í skál með plastfilmu og geymið í ísskáp.

(Rjómatoppurinn er líka mjög góður með volgri súkkulaðiköku eða skál af ávöxtum)

 

Sagan á bak við súkkulaðimúsina góðu

Langamma mín í Þýskalandi var ótrúlega góður kokkur og sagði alltaf að leiðin að hjarta mannsins væri í gegnum maga hans og ég held hreinlega að hún hafi haft rétt fyrir sér. Langamma mín og langafi áttu heima í stóru húsi og leigðu stúdentum herbergi á neðri hæðinni. Í kringum 1980 leigði hjá þeim ung stúlka sem að var að læra læknisfræði. Hinum megin við götuna bjó ungur maður á svipuðum aldri og þessi unga stúlka. Langamma mín tók eftir að stúlkan hafði augastað á honum. Í langan tíma fylgdist hún með því hvernig þessi tvö reyndu á klaufalegan hátt að tala saman þegar þau hittust úti á götu, en ekkert gekk hjá þeim. Það var eins og þau væru bæði of feimin eða eitthvað til að halda uppi samræðum hvort við annað. Á aðventu þetta ár gafst langamma mín svo upp á klaufaskap þessa unga fólks og ákvað að stíga inn í og leika Amor. Hún bauð þeim báðum til sín eitt sunnudagskvöld, spjallaði við þau, og áður en langt um leið voru þau farin að tala saman án hjálpar langömmu minnar. En ekki gat hún bara boðið þeim yfir í spjall heldur töfraði hún fram þennan eftirrétt sinn og bauð þeim upp á og sór ungi maðurinn að hann hefði aldrei smakkað eins góðan eftirrétt. Unga stúlkan fékk uppskriftina hjá langömmu minni og bauð stráknum fljótlega aftur til sín í þennan eftirrétt. Til að gera langa sögu stutta þá enduðu þau sem hjón og eiga í dag þrjú uppkomin börn og eitt barnabarn. Þessi eftirréttur er alltaf á boðstólnum hjá þeim á jólum og sagði þessi kona langömmu minni eitt sinn að líklegast væri það eftirréttinum að þakka að hún hefði náð í draumaprinsinn sinn.

Fleiri fréttir

 

Aðstoð

Hvernig getum við aðstoðað?