Tvö spennandi samstarfsverkefni MS og MATÍS

Eins og greint hefur verið frá á síðustu misserum hafa Mjólkursamsalan og Matís unnið að tveimur spennandi samstarfsverkefnum frá því að samningur þess efnis var undirritaður í janúar á þessu ári. Samningurinn snýr annars vegar að rannsóknum á hinum séríslenska skyrgerli og umbreytingu mjólkursykurs úr mysu í vín.

Í fyrrgreinda verkefninu munu fyrirtækin vinna saman að rannsóknum á sérstöðu íslenska skyrgerla-stofnsins. Í þessu felast rannsóknir á vinnslueiginleikum og lífvirknieiginleikum íslenskra skyrgerla og heilraðgreiningar á skyrstofnum. Tilgangurinn með þessu er að efla þekkingu á íslenska skyrgerla-stofninum og auðvelda skilgreiningu á sérstöðu þeirra gagnvart öðrum sambærilegum gerlastofnum. Þetta á síðan að hjálpa til við að efla sérstöðu íslensks skyrs og markaðsstöðu þess á erlendum mörkuðum.

Í verkefninu um umbreytingu mysu í vín hafa MS og Matís ásamt Foss Distillery sótt um styrk til Tækniþróunarsjóðs til fjármögnunar. Við vinnslu á próteinþykkni úr ostamysu fellur til sætuvökvi með mjólkursykri sem er eftir þykkingu 7-8 milljónir lítra. Markmið verkefnisins er að breyta þessum mjólkursykri í etanól. Það er síðan hægt að nýta sem eldsneyti, iðnaðarspíra eða í framleiðslu á áfengi. Heildarverðmæti þessarar vinnslu geta numið frá 100-450 milljónum kr. á ári m.v. það magn sem að framan greinir.

Er það von fulltrúa beggja samningsaðila að bæði verkefni gangi vel og munum við greina meira frá þeim síðar eftir því sem lengra líður á samstarfið.

          

 

Fleiri fréttir

 

Aðstoð

Hvernig getum við aðstoðað?