Þróun á Stoðmjólk hjá MS

Stoðmjólk frá MS er mjólkurstoðblanda fyrir börn á aldrinum 6 mánaða til 2 ára og kom hún á markað á vormánuðum árið 2003. Við þróun Stoðmjólkur vann MS í samstarfi við vísindamenn á rannsóknastofu í næringarfræði við Landspítala-háskólasjúkrahús og Háskóla Íslands, og er þarna um að ræða árangursríka samvinnu vísinda og iðnaðar.

Aðdragandi
Nýlegar rannsóknir hérlendis á vegum rannsóknastofu í næringarfræði hafa sýnt að ungbörn og smábörn eiga á hættu að þróa með sér járnskort og virðist óhófleg neysla venjulegrar kúamjólkur hafa slæm áhrif á járnbúskapinn. Þetta er í samræmi við rannsóknir erlendis, sem hafa sýnt góðan árangur af notkun járnbættrar kúamjólkur í stað venjulegrar hjá yngstu börnunum. Því er nú ráðlagt hérlendis að börn fái ekki venjulega kúamjólk til drykkjar fyrsta aldursárið heldur mjólkurstoðblöndu sem löguð hefur verið að þörfum ungbarna eftir að móðir kýs að hætta brjóstagjöf.
Áhugi var á því bæði hjá MS og rannsóknastofu í næringarfræði að þróa járnbætta stoðblöndu úr íslenskri kúamjólk, meðal annars vegna þess að próteinsamsetningin í íslenskri kúamjólk virðist æskilegri en úr mjólk úr erlendum kúakynjum. Einnig væri hægt að laga vítamínbætingu sérstaklega að íslenskum aðstæðum, t.d. með tilliti til D-vítamíns.

Þróunarferli
Þróunarferli Stoðmjólkur spannar um 3 ár og samanstóð þróunarteymið af þróunarsviði MS og rannsóknastofu í næringarfræði. Þróunarvinna vörunnar hófst með vinnu matvælafræðinema frá Háskólanum í Wageningen sem starfaði hjá MS vorið 2000 og lauk frumþróun í lok árs 2000. Í reglugerð um mjólkurstoðblöndur voru ákveðnir ágallar sem hindruðu að hægt væri að haga samsetningu Stoðmjólkur eins og æskilegt var talið. Var því haft samráð við Hollustuvernd (nú Umhverfisstofnun), sem þurfti að leita alla leið til Brussel, og leiddi það til lagfæringa á reglugerðinni.
Í framhaldinu var samsetning vörunnar ákveðin út frá upplýsingum um næringarlegar þarfir ungbarna á Íslandi úr hinum nýlegu rannsóknum á mataræði ungbarna og leiðréttri reglugerð um mjólkurstoðblöndur. Einnig var samsetning erlendra þurrmjólkurtegunda höfð til hliðsjónar. Á síðari stigum þróunarferlisins var unnið að fullnaðarþróun vinnslutækni, hönnun vinnsluferils og uppsetningu tækjabúnaðar, svo og hönnun umbúða.

Varan
MS Stoðmjólk er járnbætt mjólk sem löguð er að næringarþörf barna frá 6 mánaða til 2 ára aldurs. Hún er líkari móðurmjólk en kúamjólk að samsetningu, t.d. hvað varðar próteininnihald. Hún er framleidd tilbúin til drykkjar í pappafernu, og þarf ekki að blanda eins og aðrar sambærilegar erlendar afurðir á markaði hérlendis.
Varan hefur hlotið afar góðar viðtökur meðal neytenda síðan hún kom á markað. Hún hefur einnig fengið athygli erlendis frá, til dæmis er hennar getið sem einstakrar vöru í heiminum í fréttablaði Tetra Pak, sem er stærsti pappafernuframleiðandi heims, en Stoðmjólk er fyrsta ferska (gerilsneydda) varan fyrir ungbörn sem framleidd er tilbúin til drykkjar í pappafernur. Ennfremur hefur varan og samstarf rannsóknastofu í næringarfræði og MS verið kynnt á alþjóðlegum vísindaráðstefnum.

Höfundur er dr. Björn S. Gunnarsson, matvæla- og næringarfræðingur.

Fleiri fréttir

 

Aðstoð

Hvernig getum við aðstoðað?