Tæki sem beðið hefur verið eftir - nýr beinþéttnimælir afhentur LSH

Síðasta haust stóð MS fyrir söfnunarátakinu 'Mjólkin gefur styrk' fyrir Landspítala Íslands og við það tilefni var D-vítamínbætt léttmjólk færð í nýjar og tímabundnar umbúðir til að auka sýnileika átaksins. Svört fernan náði athygli landsmanna en 15 krónur af andvirði hverrar fernu runnu beint til tækjakaupa fyrir spítalann og úr varð að 15 milljónir söfnuðust. Söfnunarféð var nýtt til kaupa á beinþéttnimæli fyrir Landspítalann en hann mælir beinheilsu 7000 manns á ári hverju. Sá mælir sem fyrir var var kominn til ára sinna og var þörfin því brýn á endurnýjun þessa mikilvæga tækjabúnaðar.

Beinþéttnimæling er einföld og fullkomlega sársaukalaus rannsókn þar sem ástand beina er kannað á 15-25 mínútum. Um er að ræða röntgenrannsókn í sérstöku tæki sem mælir beinmassa og kalkmagn í beinum og segir til um hvort um beinþynningu sé að ræða, en við beinþynningu tapa beinin kalki og við það minnkar styrkur beina svo þau verða mjög brotthætt. Beinþynning er mjög algengur sjúkdómur og einkennalaus þar til bein brotna.

Tækið var flutt til landsins nú í byrjun janúar og með í för voru tæknimenn sem sáu um uppsetningu á því. Þeir kenndu jafnframt starfsfólki innkirtladeildar Landspítalans á tækið en það er Rafn Benediktsson yfirlæknir innkirtlalækninga og hans fólk sem hefur umsjón með beinþéttnimælingum og tækinu sjálfu í samvinnu við myndgreiningardeildina. Við afhendinu beinþéttnimælisins sem fram fór á spítalanum fyrr í dag vildi Rafn koma á framfæri sínum bestum þökkum til Mjólkursamsölunnar og landsmanna allra sem hjálpuðu til við að fjármagna þetta mikilvæga tæki og tók það fram að beðið hefði verið eftir því í mjög langan tíma. Páll Matthíasson forstjóri Landspítalans bætti við að það væri alltaf ánægjulegt þegar samstarf spítalans og velunnara skilaði jafn ríkulegum ávexti sem þessum og tók það sérstaklega fram að það væri mikil ánægja meðal starfsfólks að geta loks bætt þessa víðtæku og mikilvægu þjónustu við landsmenn alla. 

Páll Matthíasson, forstjóri LSH, Birna Þorsteinsdóttir, bóndi á Reykjum og
stjórnarmaður hjá MS og Rafn Benediktsson, yfirlæknir innkirtlalækninga á
Landspítalanum í Fossvogi og prófessor við læknadeild HÍ við nýja tækið.

Rafn Benediktsson þakkar kúabændum,
Mjólkursamsölunni og landsmönnum öllum fyrir fjármögnun tækisins.

Beinþéttnimælirinn hefur nú formlega verið tekinn í notkun.

Fleiri fréttir

 

Aðstoð

Hvernig getum við aðstoðað?