Sveigjanleg starfslok hjá MS

Ákveðið hefur verið að breyta stefnu MS um starfslok en hingað til hefur verið miðað við að starfsfólk hætti við 67 ára aldur.

Að þessu tilefni hittust forstjóri Mjólkursamsölunnar Ari Edwald og Sigurður Bessason formaður Eflingar en það var fyrir tilstilli þess síðarnefnda sem umræða um þessi mál komust á skrið. Forsagan er sú að við síðustu kjarasamningagerð innti Sigurður MS eftir því hvort ekki væri hægt að endurskoða stefnu fyrirtækisins varðandi starfslok sem að hans mati væru of stíf. MS hefur farið vandlega yfir þetta mál í tengslum við stefnumótunarvinnu m.a. í mannauðsmálum og niðurstaða liggur fyrir.

Sigurður Bessason segir þetta fína ákvörðun hjá MS. ,, Ég er sannfærður um að það mun skapa betri möguleika fyrir starfsfólk sem og fyrirtækið. Þegar einstaklingar nálgast starfslokaaldur geta aðstæður fólks verið mismunandi. Þetta er því samtalið sem þarf að eiga sér stað milli starfsmanns og fyrirtækis. Þessar áherslur eru í samræmi við þá stefnu sem mörkuð hefur verið til framtíðar á almenna vinnumarkaðnum um samspil starfsloka og lífeyrisréttinda.“

Eftirfarandi texti um starfslok er í mannauðsstefnu fyrirtækisins sem kynnt verður fljótlega:

Starfsfólk sem getur hætt störfum vegna aldurs hefur möguleika til þess að halda áfram störfum ef starfsgeta, áhugi og góð heilsa er fyrir hendi. Frá 1. september 2016 verða viðmið um starfslok 70 ára en horft verður á starfslok sem sveigjanlegt ferli þar sem tekið er tillit til aðstæðna hvers og eins.

Hjá fyrirtækinu eru margir starfsmenn með langan starfsaldur. Hingað til hefur verið gert ráð fyrir að starfsfólk láti af störfum við 67 ára aldur. Í samræmi við bókun í síðustu kjarasamningum um sveigjanleg starfslok hefur verið gerð sú stefnubreyting hjá MS að horfa á starfslok sem sveigjanlegt ferli þar sem tekið er tillit til aðstæðna  hvers og eins. Starfsfólk sem getur hætt störfum vegna aldurs hefur möguleika til þess að halda áfram störfum ef starfsgeta, áhugi og góð heilsa er fyrir hendi. Ef upp kemur vafi um starfsgetu skulu starfsmaður og yfirmaður auk mannauðsstjóra eiga samtal um stöðu mála og meta framhaldið og endurskoða fyrirkomulagið árlega og ef þörf er á fá liðsinni trúnaðarlæknis. Í einhverjum tilvikum eða eftir aðstæðum yrði hugsanlega um annað starf að ræða eða hlutastarf. 

Ari Edwald og Sigurður Bessason

Fleiri fréttir

 

Aðstoð

Hvernig getum við aðstoðað?