Starfsmenn MS afhenda 777.000 kr. til styrktar hjálparstarfi í Nepal

Á Íslandi búa um 100 manns sem eiga ættir að rekja til Nepal og stór hópur eru starfsmenn hjá Mjólkursamsölunni og fjölskyldur þeirra. Yfirstjórn MS ákvað strax að styrkja hjálparstarf í Nepal um 1 milljón króna í kjölfar jarðskjálftans, sem sók landið þann 25. apríl sl., og í framhaldinu vildu starfsmenn félagsins jafnframt sýna nepölsku samstarfsmönnum sínum samhug og samstöðu. Úr varð að starfsmannafélag MS skipulagði með þeim opið hús fyrir gesti og gangandi í MS að Bitruhálsi 1 í gær, fimmtudaginn 7. maí, þar sem efnt hafði verið til styrktarbingós fyrir Nepal. Viðburðurinn var auglýstur meðal starfsmanna MS og á samskiptamiðlum og úr varð að um 250 manns mættu og spiluðu bingó saman. Bingóspjöldin voru seld á 1.000 kr. og að auki gafst gestum kostur á að kaupa vöfflur, kaffi, Kókómjólk og sælgætispoka og rann allur ágóði kvöldisins óskiptur til styrktar hjálparstarfinu í Nepal. „Við renndum algjörlega blint í sjóinn með fjölda gesta og vissum ekki hvort við ættum von á tuttugu eða tvö hunduð,“ segir Svanfríður Anna Lárusdóttir, formaður starfsmannafélags MS og einn af skipuleggjendum kvöldsins. Það er skemmst frá því að segja að fjöldi gesta fór fram úr björtustu vonum og voru vinningshafar leystir út með veglegum vinningum frá fjölmörgum fyrirtækjum sem lögðu söfnuninni lið. „Samhugurinn var greinilega ekki bara meðal starfsfólk MS og voru ótal aðilar boðnir og búnir að leggja okkur lið til að gera kvöldið eftirminnilegt,“ segir Svana og færir þeim öllum bestu þakkir fyrir.

Nepalskir gestir settu sinn svip á kvöldið og vakti klæðnaður kvennanna mikla athygli enda var hann sérstaklega fallegur og litskrúðugur. Ash Gurung, formaður Félags Nepala á Íslandi og starfsmaður MS færði gestum kveðju frá samlöndum sínum og þakkaði öllum fyrir dýrmætan stuðning við þarft málefni. Ágóði kvöldsinsins nam tæplega 400.000 kr. og við það bættust 377.000 kr. sem starfsmenn MS í Reykjavík og Akureyri höfðu safnað. Er það von starfsmanna MS að peningurinn komi að góðum notum og eru þeir sem vilja leggja málefninu lið hvattir til að leggja frjáls framlög inn á styrktarreikning en reikningsnúmer hans er: 0133 – 15 – 380330.  Kt. 511012 – 0820.

Hér að neðan má sjá nokkrar myndir sem teknar voru á styrktarbingóinu.

 

Það var að lokum Birna Steingrímsdóttir sem
fékk aðalvinning kvöldsins: ostakörfu frá MS, konfektkassa
frá Nóa Síríus og tvo flugmiða til Evrópu frá Icelandair.

 

Fleiri fréttir

 

Aðstoð

Hvernig getum við aðstoðað?