Stærsta mjólkurbú landsins flutt á Selfoss

Áætlað að breytingar hjá MS skili miklum ávinningi í rekstri Stærsta mjólkurbú landsins verður flutt frá Reykjavík á Selfoss, öll framleiðsla á desertostum sameinuð í Búðardal og dreifing hjá MS Reykjavík endurskipulögð og útvíkkuð. Einnig verður gripið til almennra hagræðingaraðgerða á öllum framleiðslustöðum MS.

Réttu einu ári eftir sameiningu Mjólkursamsölunnar og Mjólkurbús Flóamanna hefur stjórn MS ákveðið að ráðast í breytingar sem áætlað er að skili félaginu um 300 milljónum króna ávinningi á næstu 2-3 árum, eða rúmlega 4 kr. á hvern lítra miðað við innlagða mjólk hjá MS á árinu 2005. Breytingarnar voru kynntar á aðalfundi MS, sem haldinn var á Hlöðum á Hvalfjarðarströnd í dag, en segja má að sameiningin hafi skapað forsendur þessara aðgerða.

“Tilgangur þessara breytinga á framleiðslu og dreifingu, sem stjórn MS hefur ákveðið, er að ná fram meiri framlegð af rekstrinum í því augnamiði að bæta afkomuna og skila bæði framleiðendum og neytendum ávinningi”, segir Guðbrandur Sigurðsson forstjóri MS.

Nýjar pökkunarvélar
Miðað er við að mjólkurpökkun verði flutt frá Reykjavík á Selfoss í lok árs 2007. Þetta er stórt og viðamikið verkefni enda er í raun verið að leggja niður stærsta mjólkurbú landsins og sameina það öðru. Reynslan sýnir að aðgerðir af þessu tagi skila miklu og er áætlað heildarhagræði af flutningnum metið um 150 milljónir króna. Ráðist verður í fjárfestingar í húsnæði á Selfossi og er húsnæðisþörf þar talin vera 2.700 fm. Flutningskostnaður í heild er metinn á 318 til 389 milljónir króna. Í tengslum við flutninginn verður tekin ákvörðun um val á pökkunarvélum til frambúðar. Þar verður ekki síst horft til sjónarmiða neytenda og hvernig nýta megi pökkunargetuna fyrir aðrar afurðir sem framleiddar eru á Selfossi.

Desertostar í Búðardal
Ný desertostagerð getur væntanlega hafið starfsemi hjá MS Búðardal í byrjun árs 2007. Núverandi desertostagerð fer að miklu leyti fram í höndum, en stefnt er að því að bæta gæði, útlit, aðstöðu og framleiðni m.a. með bættum vélabúnaði sem áætlað er að kosti 21-27 milljónir króna. Desertostar hafa verið framleiddir á Selfossi og í Búðardal en verða framvegis eingöngu framleiddir í Búðardal.

Útvíkkuð dreifing
Danska ráðgjafafyrirtækið Capacent A/S hefur ásamt IMG staðið að allsherjarúttekt á dreifingu MS með það fyrir augum að útvíkka starfsemina með sem minnstum tilkostnaði. Stefnt er að því að nýtt fyrirkomulag í dreifingu verði tekið upp í byrjun janúar 2007. Gert er ráð fyrir að aukin verkefni á þessu sviði geti skilað MS verulegum ávinningi á næstu tveimur árum.

Aukin framleiðni
Auk þess sem að framan er getið er gert ráð fyrir að á næstu tveimur árum verði hagrætt í framleiðslu hjá MS á Selfossi, í Búðardal, á Blönduósi og á Egilsstöðum.
Þegar er ljóst að talsverðir möguleikar eru á því innan MS að auka framleiðni með sértækum aðerðum jafnt sem almennum.

Áhrif á störf
Flutningur mjólkurpökkunar mun hafa áhrif á 40 störf í Reykjavík, en 20 ný störf verða til á Selfossi. Starfsfólki í Búðardal mun ekki fjölga þótt ný desertostagerð verði byggð þar upp en vegna tilflutnings fækkar um 8 störf á Selfossi. Þá er gert ráð fyrir nokkurri fjölgun starfa hjá MS í Reykjavík vegna aukins umfangs í dreifingarstarfsemi. Erfitt er að meta á þessari stundu áhrif breytinganna á starfsmannahald, enda ganga þær yfir á nokkrum misserum og aðlögun að nýjum framleiðsluháttum tekur tíma.

Húsnæði losnar
Við tilfærslu pökkunar á Selfoss losnar um 9000 fermetra húsnæði hjá MS í Reykjavík. Húsnæðisþörf vegna vaxandi umsvifa í dreifingu og aukins kælirýmis er áætluð um 2000 fermetrar, en leitast verður við að koma um 7000 femetrum í leigu til annarra aðila. Eins og áður er getið þarf að bæta við 2.700 fermetra húsnæði á Selfossi.

Nánari upplýsingar veitir Guðbrandur Sigurðsson forstjóri, GSM: 896 0122

Fleiri fréttir

 

Aðstoð

Hvernig getum við aðstoðað?