Skyrið slær í gegn á Herning

Vörur frá MS fengu fjölda verðlauna í Herning matarkeppninni sem haldin var dagana 27.-30. október

Mjólkurvörur frá MS fengu í vikunni fjölda verðlauna á matarkeppninni sem haldin er á tveggja ára fresti í Herning í Danmörku. Mjólkurbú hvaðanæva frá Norðurlöndum taka þátt í keppninni en um 1.400 mjólkurvörur voru í keppninni nú í ár. Keppt er í mismunandi flokkum og hlaut Mjólkursamsalan alls 39 verðlaun, þar af fimm gullverðlaun og þrjú heiðursverðlaun. Heiðursverðlaun fá þær vörur sem þykja skara fram úr í gæðum.

Íslenska skyrið var sérstaklega sigursælt og atti það m.a. kappi við skyr frá Arla. Íslenskt skyr fékk samtals tíu verðlaun, þar af tvenn gullverðlaun og tvenn heiðursverðlaun.

Að sögn Einars Sigurðssonar, forstjóra MS, hafa mjólkurvörur frá MS lengi verið sigursælar á Herning og er svo einnig í ár. Það er mjög ánægjulegt hversu vel gekk í keppninni og það er staðfesting á því hversu frábæra fagmenn við eigum. Þetta er flott viðurkenning fyrir fagfólkið okkar í íslenskri mjólkurframleiðslu. Ennfremur er gaman að sjá hvað íslenska skyrið fellur fólki vel í geð. Útflutningur á skyri og sala á skyri í gegnum sérleyfissamninga og samstarfsfyrirtæki hefur aukist gríðarlega á síðustu árum og gert er ráð fyrir 40% aukningu á milli ára á næsta ári“.

Norræna sýningin í Herning er haldin annað hvert ár. Þetta er í 11. sinn sem Mjólkursamsalan hefur tekið þátt og sótt þangað áður viðurkenningar fyrir skyr og osta. Á sýningunni keppa um 1.400 mjólkurvörur um verðlaun og samkeppnin er afar hörð. Í fagkeppni sem þessari eru m.a. gefnar einkunnir fyrir bragð, áferð, eigin gerð og heildarútlit vörunnar.Heildareinkunn þessara þátta skera úr um hvaða vörur vinna til verðlauna sem skiptast í heiðursverðlaun, gull, silfur og brons.

Mynd: Jóakim Danaprins ræðir við Guðmund Geir Gíslason, mjólkurbússtjóra MS Selfossi.

Fleiri fréttir

 

Aðstoð

Hvernig getum við aðstoðað?