Skólaheimsóknir í MS

Grunnskólabörn skyggnast inn í fortíðina þegar mjólkinni var tappað á glerflöskur og seldar í mjólkurbúðum !

Dagana 28. - 31. janúar síðastliðinn komu yfir 2000 grunnskólanemendur á aldrinum 8 til 10 ára og kennarar þeirra í heimsókn í Mjólkursamsöluna í Reykjavík til að kynnast mjólkurframleiðslu. Þetta er árviss viðburður sem staðið hefur í tugi ára. Hóparnir fara í u.þ.b. klukkustundar skoðunarferð með leiðsögumanni og þiggja léttar veitingar í lokin. Börnin sýna mikinn áhuga á því sem fyrir augu ber og hafa greinilega mjög gaman af því að koma. Starfsmenn víðsvegar innan fyrirtækisins sjá um að leiðbeina hópunum og koma margir að því verkefni, m.a. mjólkurfræðingar, sölufólk, skrifstofufólk, framkvæmdastjórar og forstjóri.
 
Allt framleiðsluferlið er skoðað en skoðunarferðin hefst þar sem tekið er á móti mjólkinni sem kemur í mjólkurbílum frá bændum. Þar er mjólkinni dælt í stóra kælitanka til geymslu þar til hún fer til frekari framleiðslu.  Áður en lengra er haldið er komið inn á minjasafn Mjólkursamsölunnar en hún var stofnuð árið 1935. Þar má sjá áhöld og tæki sem notuðu voru til heimavinnslu og mjólkurframleiðslu í upphafi síðustu aldar.  
 
Að sögn Baldurs Jónssonar, verkefnastjóra hjá MS er það ef til vill það hápunktur skoðunarferðar í Mjólkursamsöluna að fræðast um það þegar afi og amma fóru út í mjólkurbúð til að kaupa mjólk í brúsum og flöskum fyrir miðja síðustu öld.
 
„Börnin reka upp stór augu að sjá bullustrokk, handknúna skilvindu, mjólkursigti, mjaltatæki og margt fleira. Einnig vekur það eftirtekt að í gamla daga voru mjólkurbúðir í höfuðborginni. Þangað kom fólk með sína eigin brúsa til að kaupa mjólk en hún fékkst einnig í glerflöskum. Mjólkurbíll árgerð 1935 er á safninu og fjölmargar ljósmyndir frá fyrri tímum“ segir Baldur.
 
Frá minjasafninu er aftur haldið inn í nútímann og við tekur það sem gerist í vélasalnum í dag, þar sem mjólkin er gerilsneidd, fitusprengd, skilin og hreinsuð í skilvindu. Því næst eru búnar til ýmsar afurðir þeim pakkað í umbúðir.
 
Að lokum sjá börnin mjólkina í sínum réttu umbúðum í risastórum kælilager tilbúna til flutnings til skóla eða verslana. Börnin hitta einnig Lalla töframann  sem vekur mikla kátínu og gleði.
Hér fyrir neðan má sjá nokkrar myndir frá Skólaheimsóknunum

 

Fleiri fréttir

 

Aðstoð

Hvernig getum við aðstoðað?