Skákiðkun barna og unglinga hefur forvarnargildi

Þann 21. maí síðastliðinn voru forsvarsaðilar frá Mjólkursamsölunni viðstödd undirritun á stofnsamningi að Skákakademíu Reykjavíkur. Að samningnum auk Mjólkursamsölunnar standa Reykjavíkurborg, Landsbankinn og Orkuveita Reykjavíkur.

Hlutverk Skákakademíu Reykjavíkur (SR) verður að byggja upp skákíþróttina í höfuðborginni með sérstakri áherslu á skóla borgarinnar, en auk þess að standa árlega að Skákhátíð Reykjavíkur þar sem hápunktur vikunnar verði Alþjóðlega Reykjavíkurskákmótið sem héðan í frá verður haldið árlega en ekki á tveggja ára fresti eins og verið hefur frá 1964.

Grunnurinn að starfi SR verður í þágu ungu kynslóðarinnar. Skákvakningin meðal barna og ungmenna á Íslandi á síðustu árum er til marks um aðdráttarafl skáklistarinnar og rannsóknir sýna að bein tengsl eru milli námsárangurs og skákkunnáttu. Akademíunni er ætlað að ýta enn frekar undir þessa þróun enda einsýnt að skákiðkun meðal barna og ungmenna hefur ótvírætt forvarnagildi og er líkleg til þess að efla þroska og heilbrigð lífsviðhorf.

Skákvakningin á Íslandi á síðustu árum og hin ríka skákhefð Íslendinga er nú grundvöllur fyrir því að gera Reykjavík að Skákhöfuðborg heimsins árið 2010.

Stofnun Skákakademíu Reykjavíkur maí 2008

Fleiri fréttir

 

Aðstoð

Hvernig getum við aðstoðað?