Sigurður R Friðjónsson ráðinn verkefnastjóri vöruþróunar á sölu- og markaðssviði Mjólkursamsölunnar

 


Sigurður R Friðjónsson  ráðinn verkefnastjóri  vöruþróunar á sölu- og markaðssviði Mjólkursamsölunnar - Friðjón G Jónsson tekur við sem mjólkurbússtjóri á Akureyri
 
Sigurður Rúnar Friðjónsson hefur verið ráðinn í nýja stöðu verkefnisstjóra í vöruþróun Mjólkursamsölunnar í höfuðstöðvum fyrirtækisins í Reykjavík.  Frá árinu 2007 hefur Sigurður stýrt vinnslustöð félagsins á Akureyri.   Auk vöruþróunarverkefna hefur Sigurður umsjón með og samræmir stærri innkaup Mjólkursamsölunnar á umbúðum og hráefnum, sem  er einn af þremur stærstu kostnaðarþáttum í rekstri félagsins.  Sigurður hefur undanfarið undirbúið endurnýjun tækjabúnaðar í ostaframleiðslu MS á Akureyri. Hann mun áfram starfa að því verkefni með starfsmönnum framleiðslusviðs þar til því lýkur á fyrri hluta næsta árs.
Friðjón G Jónsson hefur verið ráðinn sem mjólkurbússtjóri MS á Akureyri frá 1. október. Friðjón hefur verið verkstjóri í búinu á Akureyri frá 2000 en starfsmaður í mjólkuriðnaði frá árinu 1977.
Þessar breytingar eru þáttur í að styrkja vöruþróun Mjólkursamsölunnar í framleiðslu skyrvara með aukinn útflutning í huga og einnig þróun nýrra ostategunda og almennra mjólkurvara fyrir innlendan og erlendan markað. Sigurður hefur stýrt vinnslustöðinni á Akureyri frá 2007, en var áður um árabil mjólkurbússtjóri MS í Búðardal, þar sem verulegur hluti af vöruþróun félagsins fór þá fram.
Einar Sigurðsson, forstjóri Mjólkursamsölunnar, segir að mikilvægt sé fyrir bændur að skapa möguleika fyrir aukinn útflutning á unnum mjólkurvörum, einkum sérvörum á borð við skyr. „Mjólkursamsalan hefur verið að hasla sér völl í útflutningi á skyri til Bandaríkjanna og Evrópu. Á síðustu misserum hefur mjög góður árangur orðið af útflutningi til Finnlands.   Að auki hefur félagið selt þekkingu og tækniþjónustu og fengið leyfisgjöld af skyrframleiðslu fyrir markað í Noregi, Svíþjóð og Danmörku. Framundan er aukin áhersla á starfsemi að þessu tagi og að skiptir miklu máli að fá til þess verks mann með þekkingu og reynslu Sigurðar að samræma framleiðsluna hér heima og erlendis, styrkja vörumerki félagsins og leiða þróun á nýjum vörutegundum.“
„Á sama tíma og félagið leitast við að styrkja útflutningsmöguleika erum við að fara í stærstu fjárfestingu félagsins um langa hríð með endurnýjun ostaframleiðslu á Akureyri,“ segir Einar Sigurðsson. „ Fyrir áramót  verða gangsett ný tæki fyrir forvinnslu mjólkur fyrir ostaframleiðslu á Akureyri. Í næstu viku mun stjórn félagsins taka ákvörðun um tækjakaup vegna sjálfrar ostaframleiðslunnar, sem stefnt er að að verði komin í gagnið fyrir norðan fyrir mitt næsta ár. Framundan er því mikil vinna við breytingar og endurnýjun á Akureyri, sem er liður í að tryggja áfram framboð á fyrsta flokks ostum á hagkvæmu verði fyrir innanlandsmarkað og útflutning. Friðjón G Jónsson kemur að þessu verki með mikla stjórnunarreynslu og fagþekkingu sem mun nýtast félaginu vel á þessu uppbyggingarskeiði. “
 
 
Fleiri fréttir

 

Aðstoð

Hvernig getum við aðstoðað?