Samstarfsaðili MS í Danmörku sæmdur Danneborg riddarakrossi

Poul Johannes Pedersen, forstjóri danska mjólkurvöruframleiðandans Thise-mejeri, var á dögunum sæmdur danska riddarakrossinum sem kenndur er við Danneborg. Poul hefur gegnt starfi forstjóra frá árinu 1992 og undir hans stjórn hefur litla mjólkurvörufyrirtækið í Salling á Jótlandi vaxið og dafnað svo um munar en í dag veltir fyrirtækið milljörðum króna á ári. Mjólkursamsalan hefur unnið náið með Thise í yfir tíu ár og hefur samstarfið alla tíð gengið vel. Thise hefur sérstakt framleiðsluleyfi fyrir skyr frá MS og sér um framleiðslu á Ísey skyri fyrir finnskan markað en skyrið er bæði framleitt hér á landi og í Danmörku.

Poul hefur unnið hörðum höndum að vexti fyrirtækisins í 25 ár og er óhætt að segja að Mjólkursamsalan eigi sinn þátt í þeim vexti. MS fjárfesti t.a.m. í tækjabúnaði fyrir mjólkurbúið árið 2014 en sú fjárfesting hefur svo sannarlega skilað sér eins og sést á markaðshlutdeild Ísey skyrs á Norðurlöndum. „Ég er allt í senn undrandi, hamingjusamur og stoltur. Stoltur yfir þessari miklu viðurkenningu sem mér hefur hlotnast og vissulega glaður yfir því að einhverjir hafa talið mig eiga þennan heiður skilið,“ var haft eftir Poul þegar hann tók við riddarakrossinum.

Starfsmenn MS senda vini sínum Poul sínar bestu hamingjuóskir um leið og við óskum fyrirtækinu til hamingju með 30 ára starfsafmælið sem haldið er upp á í byrjun september.

 

Fleiri fréttir

 

Aðstoð

Hvernig getum við aðstoðað?