Samsala í sjötíu ár

Út er komin bókin Samsala í sjötíu ár, sem hefur að geyma yfirlit yfir sölu Mjólkursamsölunnar frá stofnun árið 1935 til ársins 2005.

Bókinni er skipt í fjóra meginkafla eftir tímaskeiðum:
1935-1945 Mjólkursamsalan verður til
1945-1965 Sögulegar sættir og ný mjólkurstöð
1965-1985 Traust fyrirtæki á stöðugum tíma
1985-2005 Nýtt athafnasvæði - útþenslutímar og uppstokkun

Samsala í sjötíu árSaga Mjólkursamsölunnar var oft mörkuð átökum í samfélaginu á hverjum tíma og innan hennar hafa einnig tekist á þróttmiklir einstaklingar og margvíslegir hagsmunir.

Frá þessu greinir á lifandi hátt og litríkan í sögunni sem Óskar Guðmundsson rithöfundur hefur tekið saman og skráð. Bókin er 368 bls. að lengd og prýdd miklum fjölda ljósmynda og annars myndefnis sem og tilheyrandi töflum og skrám.

Í bókinni segir frá tilurð Mjólkursamsölunnar, þáttaskilum og breytingum sem orðið hafa á starfstímanum og speglar sagan þannig eiginlega þjóðfélagsþróun í sjötíu ár.

Jafnframt er brugðið upp myndum af ýmsu eftirminnilegu, t.d. mjólkurflutningum á hestvögnum, mjólkurbúðum, sendisveinum og allt til svipmynda frá stóru sölukeðjunum.

Í bókinni segir af Mjólkursamsölunni sem vinnustað í áratuganna rás - hér eru myndir af fólkinu sem vann verkin - og nokkrar kynslóðir neytenda koma við sögu.

Einnig kemur fram hversu stjórnendur fyrirtækisins hafa gætt hagsmuna þess og þurft að umbreyta rekstri með tilliti til gjörbreyttra markaðsaðstæðna hvað eftir annað.

Samtímis hafa eigendur fyrirtækisins, bændurnir, þurft að ganga í gegnum harðar aðgerðir, framleiðendum hefur fækkað verulega samtímis því að framleiðnin hefur vaxið.

Með því að ganga í gegnum slíkar breytingar og uppstokkun tókst fyrirtækinu að verjast og standa sig vel í harðvítugri samkeppni.

Bókin Samsala í sjötíu ár er ætluð mjólkurframleiðendum, starfsfólki Mjólkursamsölunnar á afmælisárinu 2005 og öðrum þeim er tengdir voru Samsölunni með einhverju hætti á síðustu starfsárum hennar - og áhuga hafa á að eignast bókina sér að kostnaðarlausu. Eintak af bókinni má panta í gegnum vef Auðhumlu.

Að lokum segir Magnús H. Sigurðsson stjórnarformaður í formála bókarinnar: Sú sígilda tilhöfðun á fullkomið erindi við okkur lesendur á 21. öld - að fortíð skal hyggja er framtíð skal byggja - njótið vel.

Fleiri fréttir

 

Aðstoð

Hvernig getum við aðstoðað?