Sameinaður mjólkuriðnaður

Guðmundur Þorsteinsson fjallar um mjólkuriðnað á Íslandi.
VORIÐ 2004 samþykkti Alþingi breytingu á búvörulögum og kvað á um það að afurðastöðvum í mjólkuriðnaði væri heimilt að sameinast, gera með sér samkomulag um verkaskiptingu og verðtilfærslu og hafa með sér annars konar samstarf til lækkunar tilkostnaðar. Varla verður þessi lagasetning skilin öðruvísi en sem tilmæli löggjafans um að slíkar leiðir séu farnar að þessu markmiði, enda er nú unnið að stofnun félags í eigu kúabænda þar sem sameina á alla mjólkurvinnslu á einni hendi. Í því felast tækifæri til mikils sparnaðar í greininni í viðbót við þá miklu raunlækkun vinnslukostnaðar sem náðst hefur undanfarinn einn og hálfan áratug, en hann hefur hækkað helmingi minna en vísitala neysluverðs á sama tíma. Í ljósi þeirra væntinga var ákveðið fyrir skemmstu að mjólkuriðnaðurinn tæki á sig allar kostnaðarhækkanir næsta árið. Engin önnur starfsgrein eða samtök hafa sett sér svo metnaðarfull markmið um framlag til lækkunar matvælaverðs og stöðugleika í þjóðfélaginu. Þetta hefði verið algjörlega óhugsandi án aðgerða á borð við fyrirhugaða sameiningu mjólkurvinnslunnar í einu félagi.

Tvö afskekkt samlög með lítil umsvif, á Vopnafirði og Ísafirði, hafa undanfarin ár þurft að njóta sérstakra styrkja til reksturs og mjólkurflutninga, sem fjármagnaðir hafa verið með sérstöku álagi á heildsöluverð mjólkur, s.k. verðmiðlunargjaldi. Það mun nú heyra sögunni til og jafnframt verður tryggt að mjólkurframleiðendur á þeim svæðum þurfa ekki lengur að standa undir háum flutningskostnaði mjólkur í samlag, þar sem sami flutningataxti mun gilda um allt land, og allir verða jafnt settir gagnvart markaði fyrir afurðir sínar. Er það mikilvæg jöfnun á aðstöðu til reksturs kúabúanna og þar með styrking byggða sem tæpt standa.Ýmsir hafa orðið til að tortryggja þetta fyrirkomulag og fundið því helst til foráttu að með því hyrfu endanlega allir möguleikar til samkeppni í greininni.

Nú reka fimm aðilar mjólkurvinnslu á Íslandi: Ms. Ísfirðinga, Norðurmjólk og MS, sem eru algerlaga í eigu kúabænda, Kf. Skagfirðinga, sem er blandað kaupfélag með aðild kúabænda, öll væntanlegir þátttakendur í fyrirhuguðu rekstrarfélagi. Loks er Mjólka ehf með aðild utanaðkomandi fjárfesta, en skiptir óverulegu máli í þessu samhengi vegna fábreyttrar framleiðslu og lítilla umsvifa. Væri óheft samkeppni milli þessara fyrirtækja hefði MS mikla yfirburði með um 70% af mjólkinni, vel staðsett gagnvart markaðnum og mikinn fjárhagslegan styrk. Keppinautarnir yrðu því væntanlega annaðhvort að greiða sínum bændum minna fyrir innlagða mjólk eða selja vörur sínar hærra verði en MS. Það er þó ekki heimilt nema að takmörkuðu leyti vegna ákvarðana verðlagsnefndar um lágmarksverð mjólkur til bænda og hámark heildsölusverðs stærstu vöruflokkanna.

Innan MS hefur væntanlegt rekstrarfélag verið rætt á mörgum fundum framleiðenda, bæði úti í félagsdeildunum og á fulltrúafundum. Það er afar athyglisvert að í öllum þessum umræðum hefur ekki komið fram ein einasta rödd um að MS ætti að neyta styrkleika síns á kostnað hinna. Það er okkur einfaldlega ekki keppikefli að neyta sterkrar stöðu okkar til að hagnast á kostnað stéttarsystkina okkar annars staðar á landinu. Má hafa það til marks um sterka stéttarvitund og samheldni kúabænda.

Mjólkurframleiðsla á Íslandi fer nær eingöngu fram á fjölskyldubúum þar sem meginmarkmiðið er að framfleyta sér með vinnu sinni, en aðkeypt vinnuafl óverulegur þáttur. Einingarnar eru smáar og dreifðar og kaupendur að framleiðslunni tiltölulega fáir og stórir, þar sem eru verslunarkeðjurnar. Það liggur því nokkuð beint við að líta á afurðasölufélög kúabænda sem hliðstæðu við samtök launþega og mjólkuriðnaðinn sem eins konar framlengingu þeirra þar sem eignarhald og stjórn hans er í höndum bænda og afkoma þeirra háð afkomu iðnaðarins með beinum hætti. Búvörusamningarnir og þar að lútandi löggjöf eru þá okkar kjarasamningar gagnvart neytendum og stjórnvöldum. Því er ekkert fráleitara að þessi starfsemi hafi þær heimildir, sem um gat í upphafi þessa pistils, en að samtökum launþega sé heimilt að gera samninga um kaup og kjör fyrir heilar starfsstéttir og þeir samningar njóti víðtækrar verndar löggjafans.

Samkeppni er að öllu jöfnu af hinu góða og því fer fjarri að þessi grein þurfi ekki að taka fullt tillit til hennar. Mjólkurframleiðendur keppast hver í sínu lagi við að hagræða og ná góðum árangri í rekstri búanna, sem síðan skilar sér í lægra verðlagi til verslunarinnar og vonandi einnig til neytenda. Mjólkurvörur eiga svo í harðri samkeppni við aðrar matvörur, hvort sem um er að ræða drykkjarvörur, tilbúna rétti, viðbit, álegg eða ýmsar stoðvörur til matreiðslu.
Það eru því örugglega önnur verkefni brýnni á sviði íslenskra samkeppnismála en að brjóta niður fyrirkomulag sem hefur reynst bæði neytendum og bændum hagfellt eða hindra að sá vilji löggjafans nái fram að ganga að það verði þróað áfram öllum til hagsbóta.

Höfundur er kúabóndi og situr í stjórn MS.

Fleiri fréttir

 

Aðstoð

Hvernig getum við aðstoðað?