Nýr samstarfssamningur við Beinvernd undirritaður

Nýr samstarfssamningur Beinverndar og Mjólkursamsölunnar var staðfestur þegar formaður Beinverndar, Anna Björg Jónsdóttir öldrunarlæknir, og Guðný Steinsdóttir, markaðsstjóri MS, undirrituðu samning þess efnis 14. desember. Mjólkursamsalan hefur lengi stutt við bakið á Beinvernd og mun þessi samstarfssamningur, sem gildir í eitt ár, gera Beinvernd kleift að halda áfram því öfluga forvarnar- og fræðslustarfi sem félagið hefur sinnt á nýju ári.

Beinvernd leggur mikla áherslu á að koma þeim skilaboðum til þjóðarinnar að mikilvægt sé að byggja upp og viðhalda sem mestum beinmassa yfir ævina og aldraðir þurfa að kunna leiðir til að hægja á náttúrulegu beintapi sem verður á því æviskeiði. Þetta er mikilvægt í ljósi þess að beinþynning er algengur sjúkdómur í beinum sem veldur því meðal annars að beinmassinn minnkar sem svo getur leitt til aukinnar hættu á beinbrotum.

Það er þrennt sem segja má að séu lykilatriði þegar kemur að því að halda góðri beinheilsu en það er hreyfing á borð við lyftingar og hlaup, kalkneysla og D-vítamín inntaka. Kalk fæst auðveldlega úr fæðunni, s.s. mjólkurvörum og dökkgrænu grænmeti og D-vítamín fæst úr sólarljósi en einnig úr lýsi og feitum fiskafurðum. 

 

Fleiri fréttir

 

Aðstoð

Hvernig getum við aðstoðað?