Nýr samstarfssamningur milli Íþróttakennarafélags Íslands og Markaðsnefndar mjólkuriðnaðarins (MMI)

Þann 15. ágúst s.l. var undirritaður að Laugarvatni nýr samstarfssamningur milli Íþróttakennarafélagsins og mjólkuriðnaðarins en þetta samstarf hefur nú staðið síðan 1994.  Íþróttakennarar hafa gengið í og notað við kennslu íþróttafatnað sem merktur er einu helsta slagorði mjólkuriðnaðarins „Mjólk er góð“.

Íþróttakennarar dreifa einnig kynningarefni frá mjólkuriðnaðinum til nemenda í skólum. Þar kemur fram að hollt mataræði er grundvöllurinn að góðri heilsu og tryggir okkur rétt næringarefni en jafnframt er regluleg hreyfing, uppbyggilegar æfingar og hvers kyns íþróttir nauðsynlegar öllum. Ennfremur aðstoða þeir iðnaðinn í sambandi við einstaka viðburði sem eru til þess fallnir að ná markmiðum samningsaðila sem fara mjög vel saman.

Mjólk og mjólkurvörur skipa mikilvægan fæðuflokk í manneldisstefnu Íslendinga. Allar mjólkurafurðir eru auðugar af kalki og öðrum bætiefnum og með öflugri vöruþróun hefur fjöldi mismunandi tegunda aldrei verið meiri. Með fjölbreytni í neyslumjólk geta ungmenni valið sér mjólk við hæfi, jafnt með tilliti til bragðs og fituinnihalds. Íslenskir ostar, sýrðar mjólkurvörur og markfæði þykja sérlega vandaðar og auðvelda fólki enn frekar að nýta ótvíræða hollustu mjólkurinnar á þann hátt sem best hentar.

Á námskeiði Í.K.F.Í. að Laugarvatni þann 15. ágúst, hittu fulltrúar Markaðsnefndar mjólkuriðnaðarins, Magnús Ólafsson og Baldur Jónsson, fyrir u.þ.b. 60 hressa íþróttakennara sem smökkuðu á nokkrum nýjum vörutegundum sem komið hafa á markað undanfarin misseri. Á námskeiðinu hélt Hildur Ósk Hafsteinsdóttir, skólamjólkurfulltrúi MMI, fyrirlestur um næringu og skýrði frá nýlegri könnun Lýðheilsustofnunar um mataræði barna á Íslandi.


Magnús Ólafsson og Baldur Jónsson ásamt íþróttakennurum.
Ljósm.: Hörður Ásbjörnsson

Fleiri fréttir

 

Aðstoð

Hvernig getum við aðstoðað?