Nánar um ákvörðun Samkeppniseftirlitsins

 Nú liggur fyrir endurtekin ákvörðun Samkeppniseftirlitsins (SE) í máli Mjólkursamsölunnar ehf., vegna meintra brota MS á árunum 2008 til 2013. SE hækkar sekt vegna meintrar misnotkunar á markaðsráðandi stöðu frá því sem ákveðið var árið 2014, úr 370 m.kr. í 440 m.kr. og ákveður sérstaka sekt upp á 40 m.kr fyrir það að MS hafi leynt gögnum, eða samtals 480 m.kr.

Eins og skýrt hefur verið frá mun MS á ný kæra ákvörðunina til áfrýjunarnefndar samkeppnismála og stjórnendur MS gera sér sterkar vonir um að endanleg niðurstaða í málinu muni ekki fela í sér nein viðurlög fyrir MS. Sem fyrr telur MS að niðurstaða SE byggi á rangri túlkun á samspili samkeppnislaga og búvörulaga, auk þess sem rangar ályktanir hafi verið dregnar um þau viðskipti sem til rannsóknar voru. Stjórnendur MS hafa alltaf lagt ríka áherslu á að starfa í samræmi við lög og reglur. MS hefur enda aldrei sætt niðurstöðu um að hafa brotið samkeppnisreglur, hvorki af hálfu stjórnvalda né dómstóla. Þegar SE talar um ítrekuð brot MS er verið að vísa til þess að SE ákvarðaði árið 2006 að Osta- og smjörsalan sf. hefði misbeitt markaðasráðandi stöðu í einum afmörkuðum viðskiptum með undanrennuduft. Fyrirtækið var ekki sektað, m.a. á þeim grundvelli að tengsl samkeppnislaga og búvörulaga gætu hafa virst óljós. Þessi framsetning er því ósanngjörn og hæpin.

SE hefur frá upphafi byggt sína nálgun á því að sú staðreynd að MS og samstarfsaðilar hafi miðlað mjólk sín á milli á lægra verði en öðrum framleiðendum var selt á, feli í sér misnotkun á markaðsráðandi stöðu. MS er ekki sammála þessu og telur að ekki sé um sambærileg viðskipti að ræða. Þeir sem hafi verið aðilar að samstarfi á grundvelli búvörulaga, hafi tekið á sig kostnaðarsamar skuldbindingar. Þeir sem voru í hreinum og skilmálalausum viðskiptum tóku ekki á sig slíkar skuldbindingar. Þetta er alþekkt á ýmsum sviðum viðskipta. Fyrirtæki borga ekki sama verð fyrir rafmagn sem þarf að greiða fyrir hvort sem það er notað eða ekki, og fyrir rafmagn sem er greitt eftir notkun.

Mikilvægi þessa samstarfs innan mjólkuriðnaðarins hefur alla tíð verið þungamiðjan í málflutningi MS og því ljóst að MS hefur alltaf haft mikinn hvata til að koma upplýsingum um það á framfæri. Fyrir áfrýjunarnefnd haustið 2014 kom hins vegar vel í ljós að SE taldi þetta samstarf ekki skipta máli fyrir niðurstöðu málsins og leit því framhjá því. Áfrýjunarnefnd var ekki sammála þessu og taldi að þetta þyrfti að rannsaka frekar. Ekki væri hægt að komast að niðurstöðu um hvort um mismunun væri að ræða nema þetta baksvið málsins væri skoðað. MS lagði fyrir áfrýjunarnefnd samning um samstarf MS og KS frá árinu 2008, sem í ljós kom að SE taldi sig ekki hafa vitað um. Það ber þó að undirstrika að heimild fyrirtækjanna til samstarfs samkvæmt búvörulögum er ekki bundin við það að skriflegur samningur hafi verið gerður. Það vægi sem SE hefur gefið þessu plaggi er hálmstrá, sem SE hefur gripið til, frekar en að viðurkenna að áherslur þeirra í málinu og skilningur á mikilvægi ákvæða búvörulaga við úrlausn málsins, var ekki réttur. MS hefur aldrei haft hag af því að úrlausn þessa máls tefðist eða af því að leyna gögnum sem eru málstað MS til framdráttar. Verður að segja það eins og er að það hefur verið mjög erfitt að sitja undir spuna SE um þetta atriði.

Samkvæmt framansögðu er ljóst að SE hefur sjálfu ekki farist það vel úr hendi að túlka samspil búvörulaga og samkeppnislaga og engar vísbendingar eru um það að MS hafi farið gegn betri vitund á svig við reglur. Einnig þarf að hafa í huga að MS er fyrirtæki sem ekki hefur verið rekið með hagnaðarsjónarmið að leiðarljósi, heldur hefur markmiðið verið að þjóna samfélaginu, bændum og neytendum, með eins lágri álagningu og unnt er. Það er því í öllu falli alltaf ljóst, að sú sektarfjárhæð sem SE setur fram, er úr öllu hófi. Allt frá stofnun MS í núverandi mynd hefur verið gerði rík hagræðingarkrafa á fyrirtækið sem hefur endurspeglast í afkomu þess. Á þessum fyrstu níu starfsárum er samanlagt tap fyrir skatta 585 m.kr. Afkoma fyrirtækisins hefur þannig verið óviðunandi sem veldur fyrirtækinu erfiðleikum við að takast á við útgjaldahögg á borð við þessa sekt. Eigendur félagsins hafa ákveðið að fjármagna sektina í upphafi með lánveitingu til MS, en sektina þarf að greiða innan mánaðar. Framhaldið verður svo metið í ljósi endanlegrar niðurstöðu málsins þegar hún liggur fyrir.

Ákvarðanir um verð á helstu mjólkurvörum í heildsölu og lágmarksverð til bænda eru teknar af opinberri verðlagsnefnd. Þar á meðal eru verðákvarðanir á öllum hráefnum sem seld eru samkeppnisaðilum MS og öðrum matvælaframleiðendum. Við ákvarðanatöku sína styðst verðlagsnefnd meðal annars við kostnaðarþróun í rekstri kúabúa og afurðastöðva. MS hefur því ekki nokkra hagsmuni eða getu til að misnota þá stöðu sem félagið er í. Þvert á móti eru það hagsmunir MS og bænda að sem mest magn af mjólk sé unnið og selt á markaði og að vöruþróun fleiri fyrirtækja skili árangri.

Skýrsla Hagfræðistofnunar frá síðasta ári og fleiri rannsóknir staðfesta, að sú umgjörð sem mjólkurframleiðslan hefur búið við á undanförnum árum, hefur leitt til mikillar hagræðingar í greininni. Sú hagræðing hefur síðan skilað sér til neytendenda í lækkuðu vöruverði, sem nemur milljörðum króna árlega.

Það er ljóst að ef mjólkuriðnaðurinn nyti ekki þeirra heimilda til samstarfs sem eru í búvörulögum, þá hefði framangreind hagræðing ekki orðið og kíló af osti væri t.a.m. nokkur hundruð krónum dýrara en nú er. Lausn SE á því samkvæmt umsögn þess til atvinnuveganefndar Alþingis um búvörulög, er að lækka tolla og flytja meira inn af mjólkurvörum. Það myndi fyrirsjáanlega minnka umfang íslenskrar mjólkurframleiðslu um tugi milljóna lítra af mjólk árlega. Með leyfi að spyrja, er slík grundvallarbreyting á tilverugrundvelli kúabúskapar á Íslandi verkefni þessarar stofnunar eða einstakra starfsmanna SE?

Með góðri kveðju,

Egill Sigurðsson

Ari Edwald

 

 

Fleiri fréttir

 

Aðstoð

Hvernig getum við aðstoðað?