MS styrkir heimsókn grænlenskra barna til Íslands

Um þessar mundir stendur yfir heimsókn grænlenskra barna á Íslandi, en um er að ræða hóp 11 ára gamalla barna sem búsett eru í afskekktum smáþorpum á austurströnd Grænlands. Börnin sem eru 25 talsins eru hingað komin til að læra sund, æfa skák, ferðast um landið og kynnast íslenskum jafnöldrum og með í för eru sex kennarar þeirra. Meðan á tveggja vikna heimsókn barnanna stendur munu þau t.a.m. sækja skóla í Salaskóla í Kópavogi, fara í fyrsta skipti á ævinni í bíó og aka Gullna hringinn. 

Þetta er ellefta árið í röð sem Kalek, vinafélag Íslands og Grænlands, og skákfélagið Hrókurinn standa að heimsókninni en það hafa félögin gert með stuðningi Kópavogsbæjar, Alþingis, Flugfélags Íslands, MS og fleiri aðila, en MS hefur komið að þessu verkefni með Kalek og Hróknum frá upphafi.

Mánudaginn 5. september var haldin móttaka fyrir grænlensku börnin á Bessastöðum en þar sló nýkjörinn forseti landsins, Guðni Th. Jóhannesson á létta strengi með börnunum og kenndi þeim m.a. víkingaklappið svokallaða við mikla kátínu barnanna. Börnin létu sitt ekki eftir liggja og sungu grænlensk lög fyrir gesti og vildu með söngnum þakka kærlega fyrir sig og þann skemmtilega tíma sem þau fá að upplifa meðan á Íslandsdvöl þeirra stendur.

Meðfylgjandi eru nokkrar myndir sem teknar voru á Bessastöðum við þetta tilefni.

 

 

Fleiri fréttir

 

Aðstoð

Hvernig getum við aðstoðað?