MS Selfossi hlýtur viðurkenningu

Stuðla að þátttöku og jafnrétti fatlaðs fólks

Á alþjóðadegi fatlaðra 3.des. s.l. afhentu Landssamtökin Þroskahjálp viðurkenningarnar Múrbrjóta, aðilum sem hafa rutt úr vegi hindrunum í þágu fatlaðs fólks og stuðlað að auknum tækifærum fatlaðs fólks og samskipan. Athöfnin fór fram á Grand Hóteli en MS á Selfossi, Norðlingaskóli í Reykjavík og List án landamæra hlutu Múrbrjótinn að þessu sinni. Verðlaunagripurinn er smíðaður af fötluðum listamönnum á handverkstæðinu Ásgarði. Landssamtökin Þroskahjálp hafa á síðustu árum veitt viðurkenningar til þeirra aðila sem að mati samtakanna hafa staðið sig vel í því að ryðja fötluðum nýja braut í samfélaginu, sýnt ábyrgð og frumkvæði og stuðlað að þátttöku og jafnrétti fatlaðs fólks. MS á Selfossi fær viðurkenninguna fyrir atvinnustefnu
sem hefur stuðlað að aukinni atvinnuþátttöku fatlaðs fólks. Norðlingaskóli í Reykjavík fær verðlaunin fyrir skólastefnu sína um nám fyrir alla nemendur, án aðgreiningar. List án landamæra, er menningarhátíð með það hlutverka að stefna saman fötluðum og ófötluðum listamönnum. Sjá nánar á Kýrauganu og www.ms.is. Mynd: Guðmundur G. Gunnarsson veitir viðurkenningunni móttöku úr hendi Árna Páls Árnasonar, félags-og tryggingarmálaráðherra. Með honum á myndinni ásamt ráðherra frá vinstri Ólafur Einarsson verkstjóri hjá MS, tveir skjólstæðingar og Guðmundur Eiríksson verkstjóri hjá MS. 

Mjólkursamsalan á Selfossi hefur frá árinu 1992 verið í samstarfi við Svæðisskrifstofu málefna fatlaðra á Suðurlandi og VISS – vinnu og endurhæfingarstöð . Samstarf þetta hófst í tíð Mjólkurbús Flóamanna sem síðar varð að MS. Fyrirtækið hefur í gegnum tíðina stuðlað að því að fatlað fólk fengi verkefni og atvinnutækifæri frá fyrirtækinu. Það samstarf hefur falist í að VISS hefur fengið verkefni frá fyrirtækinu sem unnin hafa verið hjá VISS. Í lok árs 1997 stofnaðu MBF endurvinnslufyrirtækið HUSL í samstarfi við SMFS. Markmið þeirrar starfsemi var að veita fólki með skerta starfsgetu atvinnu tengda endurvinnslu á pappír sem til féll hjá MBF og fleiri fyrirtækjum auk þess að stuðla að endurvinnslu og umhverfisvernd. Haustið 2006 gerðu MS, SMFS og Viss með sér samning um starfsþjálfun starfsmanna frá Viss. Tveir til þrír starfsmenn hafa notið starfsþjálfunar hjá MS auk þess sem starfsmenn á vegum Atvinnu með stuðningi hafa verið í vinnu hjá MS. Samstarfið hefur því þróast í tímans rás frá því að starfsmenn Viss unnu verkefni frá MS á Viss í það að verkefnin eru nú unnin í fyrirtækinu sjálfu og einstaklingarnir eru komnir í vinnu hjá fyrirtækinu. Samstarf SMFS og stjórnenda MS hafa verið afar gott alla tíð og má fullyrða að mjólkurbússtjórinn Guðmundur Geir Gunnarsson hefur að öðrum ólöstuðum verið drifkraftur þessa samstarfs og verið vakandi fyrir verkefnum sem hentað gætu fólki með skerta starfsgetu og stuðlað að auknum og góðum atvinnutækifærum fyrir fatlað fólk á Suðurlandi. MS á Selfossi hlýtur Múrbrjót Landssamtakanna Þroskahjálpar fyrir atvinnustefnu sem hefur stuðlað að aukinni atvinnuþátttöku fatlaðs fólks á Suðurlandi og samskipan.

Á myndunum hér fyrir neðan má sjá Guðmund Geir Gunnarsson mjólkurbússtjóra MS Selfossi taka á móti viðurkenningunni frá Landssamtökum Þroskahjálpar.

Fleiri fréttir

 

Aðstoð

Hvernig getum við aðstoðað?