MS og starfsfólk félagsins styðja fjársöfnun félags Nepala á Íslandi

- Fjórðungur Nepala á Íslandi eru starfsmenn MS og fjölskyldur þeirra

 

Mjólkursamsalan hefur tekið höndum saman með starfsmannafélagi MS, félagi Nepala á Íslandi og Rauða krossinum um innanhússöfnun til styrktar hjálparstarfinu í Nepal eftir jarðskjálftana þar. Um fjórðungur þeirra Nepala sem býr á Íslandi eru starfsmenn MS og fjölskyldur þeirra. Mjólkursamsalan er í eigu íslenskra kúabænda og segir Egill Sigurðsson, bóndi á Berustöðum og stjórnarformaður MS, að íslenskir bændur þekki af aldalangri sambúð við náttúruöflin hve mikilvægt geti verið að eiga aðstoð vísa. „Það er hópur harðduglegs fólks frá Nepal í starfsmannaliði MS.  Við viljum leggja þessu fólki lið við að koma til hjálpar heima í Nepal.“

 

Auk fjársöfnunar innanhúss til stuðnings hjálparstarfinu eystra þar sem fyrirtækið lagði fram fyrstu milljónina, mun MS leggja lið annarri fjáröflun félags Nepala. Starfsmannafélög innan Mjólkursamsölunnar leggja söfnuninni að auki lið og einnig getur starfsfólk lagt sitt að mörkum með beinum eigin framlögum. Gert er ráð fyrir að Rauði krossinn tryggi að þeir fjármunir sem safnast skili sér beint til þeirra sem eiga um sárt að binda. Þeir sem vilja leggja beint inn á söfnunarreikning félags Nepala á Íslandi geta lagt inn á reikningsnúmerið 0133–15–380330. Kt. 511012–0820.

 

Fleiri fréttir

 

Aðstoð

Hvernig getum við aðstoðað?