MS misnotaði ekki markaðsráðandi stöðu sína

Vegna úrskurðar áfrýjunarnefndar samkeppnismála um að fella úr gildi ákvörðun Samkeppniseftirlitsins frá 7. júlí s.l., og þar með sekt að upphæð 440 milljónir króna, um meint brot Mjólkursamsölunnar (MS) á árunum 2008 til 2013, vill MS taka eftirfarandi fram:

MS lýsir yfir ánægju yfir því að áfrýjunarnefnd hafi farið vel í saumana á ákvörðun Samkeppniseftirlitsins.

Þá er það sérstakt ánægjuefni að nefndin skuli hafa staðfest að samstarf MS við tengda aðila hafi verið að fullu í samræmi við lög og að Samkeppniseftirlitið hafi ekki gefið samspili samkeppnislaga og búvörulaga nægilegan gaum í rannsókn sinni.

Samkvæmt lögum er hluti af starfsemi mjólkuriðnaðarins undanþeginn afmörkuðum ákvæðum samkeppnislaga. Markmið þessa er að lækka kostnað við framleiðslu mjólkurafurða, til ábata fyrir neytendur. Skipulag starfsemi MS og tengdra aðila hefur grundvallast á þessu.

Sú heimild til samstarfs sem aðilar í mjólkuriðnaði hafa á grundvelli búvörulaga, hefur skilað sér í verulegri hagræðingu og þar af leiðandi umtalsvert lægra vöruverði til neytenda. Þetta fyrirkomulag hefur skilað sér í töluvert lægra verði á mjólkurvörum til neytenda samkvæmt óháðum úttektum aðila á borð við hagfræðistofnun Háskóla Íslands.

Varðandi staðfestingu á úrskurði Samkeppniseftirlitsins um að MS hafi láðst að leggja fram tiltekið gagn þá skal það tekið fram að MS hafði engan hag af því, heldur þvert á móti, enda studdi það málstað MS. Þá skal það áréttað að MS veitti ekki á nokkru stigi rangar upplýsingar heldur láðist að leggja fram tiltekinn samning, sem margoft var þó vísað til á fyrri stigum málsins.

Það eru hagsmunir kúabænda, eigenda MS, að sem flestir aðilar starfi að nýsköpun í greininni, að vöruframboð sé fjölbreytt og smærri fyrirtæki skili árangri í nýtingu mjólkurafurða.

Það er von MS að hið góða samstarf við bændur og aðra framleiðendur, eflist með tíð og tíma og skili sér áfram í nýsköpun í iðnaðinum og fjölbreyttu vöruúrvali til neytenda.

f.h. Mjólkursamsölunnar (MS),
Ari Edwald forstjóri
 

Fleiri fréttir

 

Aðstoð

Hvernig getum við aðstoðað?