MS gengur til liðs við Festu, miðstöð um samfélagsábyrgð

Mjólkursamsalan hefur gengið í Festu, miðstöð um samfélagsábyrgð. Markmið Festu er að leita bestu aðferða fyrir fyrirtæki við innleiðingu á stefnu um samfélagsábyrgð, stuðla að vitundarvakningu um samfélagsábyrgð fyrirtækja og hvetja til rannsókna á viðfangsefninu í samstarfi við háskólasamfélagið.

Mjólkursamsalan hefur á undanförnum árum sinnt ýmsum samfélagsmálum á borð við íslenskuátakið, söfnun fyrir Landspítalann og styrkjum til íþrótta- og góðgerðarmála. Enn fremur leggur fyrirtækið mikla áherslu á umhverfismál og ýmis neytendamál. Dæmi um um áfanga í umhverfismálum Mjólkursamsölunnar eru t.d. virk þátttaka í verkefninu Fernur eiga framhaldslíf - skilið, sem miðaði að því að fá almenning til að skila umbúðum til endurvinnslu; rafskautakatlar eru notaðir hjá fyrirtækinu til gufuframleiðslu; varmaskiptar sem endurvinna 90% orkunnar eru notaðir við gerilsneyðingu og flutningabílar fyrirtækisins eru umhverfisvænni en áður og sparakstursnámskeið hafa verið haldin fyrir bílstjóra.

Með inngöngu í Festu ætlar MS sér að leggja enn meiri áherslu en áður á allt sem kemur að skipulagi og framkvæmd á Samfélagsstefnu fyrirtækisins. Hjá Festu hefur safnast saman reynsla og þekking margra góðra fyrirtæki sem eru að gera góða hluti í samfélagsstefnum sínum. MS vonast til að geta með inngöngu í Festu tekið þátt í umræðum sem þar fara fram um samfélagsmál fyrirtækja á Íslandi og lært af þeim sem eru fremstir í þessum efnum.

Ketill Magnússon, framkvæmdastjóri Festu og Guðný Steinsdóttir, markaðsstjóri MS, handsala samkomulagið.

Nánar má lesa um Festu hér: http://festasamfelagsabyrgd.is/

Fleiri fréttir

 

Aðstoð

Hvernig getum við aðstoðað?