Mjólkursamsalan safnar fyrir Kusu á Landspítala

Söfnunarátakinu Mjólkin gefur styrk ýtt úr vör

Stjórnendur Landspítala tóku vel á móti Ara Edwald, forstjóra Mjólkursamsölunnar þegar söfnunarátakinu Mjólkin gefur styrk var ýtt úr vör fjórða árið í röð, en með átakinu styður fyrirtækið við kaup á nýjum tækjabúnaði fyrir Landspítala. Þau Páll Matthíasson, forstjóri LSH, Alma Möller, framkvæmdastjóri aðgerðarsviðs LSH og Guðlaug Rakel Guðjónsdóttir, framkvæmdastjóri flæðisviðs LSH hittu Ara við þetta tækifæri og með í för var góðgerðarfernan sem er táknmynd átaksins í ár. „Það er með gleði og stolti sem við leggjum Landspítala lið með þessum hætti en við vitum eins og aðrir að starfsfólk spítalans þarf að hafa yfir að ráða góðum og nútímavæddum tækjabúnaði til að ná sem bestum árangri í meðhöndlun skjólstæðinga sinna,“ sagði Ari þegar átakinu var formlega hleypt af stokkunum.

Eins og undanfarin ár er það D-vítamínbætt léttmjólk sem skiptir tímabundið um útlit og munu 30 kr. af hverri seldri fernu renna til tækjakaupa á spítalanum. Síðustu þrjú ár hafa safnast 45 milljónir og í framhaldinu hefur tækjakostur Landspítala batnað til muna. Að þessu sinni er lagt upp með sama markmið, en það er að safna 15 milljónum sem nýttar verða til kaupa tvö tæki sem stjórnendur Landspítala voru sammála um að brýn þörf væri á. Fyrst ber að nefna Cusa tæki sem fagfólk kallar yfirleitt „Kusuna“ en það er notað til skurðaðgerða á líffærum, t.d. til að nema burtu illkynja mein úr viðkvæmum vefjum og skapar tækið möguleika á að gera slíkar aðgerðir með kviðsjártækni. Enn fremur verður safnað fyrir barkaspeglunartæki sem auðveldar barkaþræðingu hjá mikið slösuðum og veikum sjúklingum sem koma á bráðamóttöku.

Söfnunarátaki ýtt úr vör: Páll Matthíasson forstjóri Landspítala og Ari Edwald forstjóri Mjólkursamsölunnar, ásamt Ölmu Möller, framkvæmdastjóra aðgerðarsviðs Landspítala og Guðlaugu Rakel Guðjónsdótturframkvæmdastjóra flæðisviðs Landspítala.

Fleiri fréttir

 

Aðstoð

Hvernig getum við aðstoðað?