Mjólkursamsalan hlýtur heiðursverðlaun fyrir brautyðjendastarf í þágu íslenskunnar

Viðskiptaráð Íslands, Stofnun Árna Magnússonar og Festa - miðstöð um samfélagsábyrgð afhentu á degi íslenskrar tungu í fyrsta sinn hvatningarverðlaun viðskiptalífsins um eftirtektarverða notkun á íslenskri tungu. Við erum full stolts og þakklætis fyrir þann heiður sem okkur var sýndur við það tilefni en Mjólkursamsalan hlaut sérstök heiðursverðlaun fyrir brautryðjendastarf í þágu íslenskunnar og eftirtektarverða notkun á íslenskri tungu um áratugaskeið.

Byggði dómnefndin mat sitt á því hvort skýr málstefna væri til staðar og fylgt eftir í viðkomandi fyrirtæki og einnig á lykilorðunum: Vandað, frumlegt, skapandi og skemmtilegt, í sambandi við notkun íslenskrar tungu. Rúmlega 40 tilnefningar bárust og ákvað dómnefndin að leggja til að veitt yrðu tvenn verðlaun, annars vegar Heiðursverðlaun viðskiptalífsins og síðan Hvatningarverðlaunin.

Rök dómnefndar fyrir verðlaununum svo svohljóðandi:

Mjólkursamsalan hefur verið brautryðjandi í íslensku viðskiptalífi um eflingu móðurmálsins allt frá árinu 1994.  Fyrirtækið hefur nýtt fjölbreyttar leiðir til að benda á mikilvægi íslensks máls og gert það á snjallan hátt.  Sýnilegasta og stærsta verkefni fyrirtækisins eru sérstök átaksverkefni á mjólkurfernum og allir þeir sem hafa alið upp börn, kannast við þegar þau hefja lestur með því að stauta sig í gegnum íslenskuna á mjólkurfernunum – sem hefur oftar en ekki útskýrt merkingu orða sem erfitt er að átta sig á – sem dæmi um slíkt er nafnið „Apavatn“ – sem krakkar halda fyrst að sé um dýrið apa, en læra á mjólkurfernunum að orðið merki „aur“ eða „leir“.

Þannig hefur Mjólkursamsalan eflt þekkingu okkar á málinu og stutt við málvitundina.  Mjólkursamsalan hefur einnig nýtt málið á skemmtilegan hátt, sem við sjáum núna á jólamjólkinni þar sem stafirnir í „jól“ eru dregnir út úr orðinu „mjólk“. Þá eru fernurnar nýttar til að minna á hina ýmsu viðburði s.s. fullveldisafmæli Íslands.  Mjólkursamsalan hefur um árabil verið í samstarfi við Íslenska málnefnd og nýtt 16. nóvember, dag íslenskrar tungu, til að minna á mikilvægi tungumálsins.  Önnur eldri verkefni eru verkefnið „Allir lesa“ um lestrarátak, íslenskuljóðið „Á íslensku má alltaf finna svar“ sem sungið var svo undurfallega af stúlku, fulltrúa ungu kynslóðarinnar, og svo mætti lengi telja.  

Dómnefndin taldi sig knúna - að leggja til að þessum heiðurverðlaunum yrði bætt við að þessu sinni, til þess að þakka Mjólkursamsölunni fyrir framtak sitt við að hefja móðurmálið til vegs og virðingar, og um leið hvetja fyrirtækið áfram til góðra verka á þessu sviði í framtíðinni.

Dómnefndina skipuðu Katrín Olga Jóhannesdóttir, formaður Viðskiptaráðs Íslands, Ari Páll Kristinsson, rannsóknarprófessor hjá Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum og Hrafn Loftsson, dósent við tölvunardeild.

Stöndum vörð um íslenskuna og stöndum með henni á sama tíma með því að gera henni hátt undir höfði því það á hún á svo sannarlega skilið.

Á myndinni hér að ofan má sjá starfsmenn Mjólkursamsölunnar ásamt frú Elizu Reid, forsetafrú, sem afhenti verðlaunin við hátíðlega athöfn á degi íslenskrar tungu. Frá vinstri: Gréta Björg Jakobsdóttir, Guðný Steinsdóttir, frú Eliza Reid, Sunna Gunnars Marteinsdóttir, Ásgerður Höskuldsdóttir og Einar Einarsson.

Fleiri fréttir

 

Aðstoð

Hvernig getum við aðstoðað?