Mjólkursamsalan gengin til liðs við Viðskiptaráð Íslands

Mjólkursamsalan er nýr félagi í Viðskiptaráði Íslands, en um er að ræða heildarsamtök fyrirtækja, félaga og einstaklinga í íslensku atvinnulífi. Viðskiptaráð var stofnað fyrir tæpri öld, eða árið 1917, og frá upphafi hafa þeir sem að því standa talið að heilbrigt og kraftmikið atvinnulíf skapi forsendur þess að á Íslandi verði framfarir sem leiði til bættra lífskjara þjóðarinnar. Tilgangur ráðsins er að vinna að sameiginlegum hagsmunamálum atvinnulífsins, þvert á atvinnugreinar og óháð stærð fyrirtækja, og eins er unnið að því hörðum höndum að efla frjálsa verslun og framtak.

Mjólkursamsalan er rekstrarfélag mjólkuriðnaðarins á Íslandi og eigendur félagsins eru rúmlega 650 kúabændur um land allt. Hlutverk hennar er að taka við mjólk frá eigendum sínum, framleiða hollar og góðar mjólkurafurðir í takt við þarfir íslenskra neytenda, pakka þeim og markaðssetja, og loks selja og dreifa til viðskiptavina og neytenda um land allt.

Fulltrúar Mjólkursamsölunnar eru ánægðir með inngönguna í félagið og vonast til þess að samstarfið verði ánægjulegt og að sami skapi árangursríkt í framtíðinni. 

Fleiri fréttir

 

Aðstoð

Hvernig getum við aðstoðað?