Mjólkin gefur styrk - söfnunarátak til styrktar Landspítalanum er hafið

Það var glatt á hjalla þegar góðgerðarfernurnar fjórar komust í hendur „samstarfsmanna“ sinna á Landspítalanum þegar söfnunarátakinu Mjólkin gefur styrk var formlega hleypt af stokkunum. Ari Edwald, forstjóri Mjólkursamsölunnar, afhenti læknum og geislafræðingum á Landspítalanum fyrstu fernurnar og voru allir sammála um að þar væru á ferðinni líflegar og skemmtilegar fernur. „Vel menntað heilbrigðisstarfsfólk þarf góðan tækjabúnað til að ná besta mögulega árangri við að meðhöndla sjúkdóma og lækna fólk, og leggjum við þeim lið með stolti,“ sagði Ari við afhendingu fernanna.

Þetta er þriðja árið í röð sem Mjólkursamsalan efnir til átaksins Mjólkin gefur styrk, en um er að ræða söfnun sem styður við kaup á nýjum tækjabúnaði fyrir Landspítalann. Líkt og áður skiptir D-vítamínbætt léttmjólk tímabundið um útlit og munu 30 kr. af hverri seldri fernu renna til tækjakaupa á spítalanum.

Síðustu tvö ár hafa safnast 30 milljónir og í framhaldinu var tækjakostur Landspítala bættur til muna. Árið 2014 söfnuðust 15 milljónir og var fest kaup á nýjum beinþéttnimæli en sá sem fyrir var var kominn til ára sinna og orðinn nær óstarfhæfur. Árið eftir söfnuðust aftur 15 milljónir og voru þær nýttar til að stórbæta tækjabúnað og starfsaðstöðu á bæklunarskurðdeild spítalans með kaupum á nýju skurðarborði og lyftara sem létti undir með starfsfólki deildarinnar. Markmiðið að þessu sinni er að endurtaka leikinn og safna 15 milljónum til kaupa á nýjum tækjabúnaði sem auðveldar greiningu á brjóstakrabbameini. Um leið og við söfnum fyrir þessum búnaði þá heiðrum við hetjurnar sem starfa á Landspítalanum með því að klæða D-vítamínbættu léttmjólkina upp sem litlar eftirmyndir þeirra og viljum við með því þakka heilbrigðisstarfsfólkinu okkar fyrir óeigingjarnt starf í þágu þjóðarinnar.

Brjóstgóður styrkur
Kalkmyndun í brjósti getur verið merki um að þar sé krabbamein í þróun en kalkið sést vel á röntgen en illa eða ekki á ómun, en það er sú aðferð sem við notum til að taka sýni til rannsóknar í dag. Þetta þýðir að á hverjum tíma lifa allnokkrar konur í óvissu um hvort þær séu með krabbamein svo mánuðum og jafnvel árum skiptir, en það er með öllu óásættanlegt. Næstu vikur renna 30 krónur af hverri seldri fernu af D-vítamínbættri léttmjólk til kaupa á nýjum búnaði sem gerir læknum kleift að finna kalksvæðið í brjóstinu með röntgentækni og sjúga það út á einfaldan hátt til greiningar. Þetta tekur mun skemmri tíma en núverandi aðferð, dregur úr óvissu kvennanna og bætir þannig lífsgæði þeirra umtalsvert.

 

Þess ber að geta að verð á mjólkinni helst óbreytt frá því sem áður var og hefur þessi söfnun engin áhrif á verð mjólkurinnar.

Fleiri fréttir

 

Aðstoð

Hvernig getum við aðstoðað?