Mjólkin gefur styrk - Söfnun hafin fyrir Landspítalann

Annað árið í röð blæs Mjólkursamsalan til söfnunar á nýjum tækjabúnaði fyrir Landspítalann undir yfirskriftinni Mjólkin gefur styrk. Meðan á átakinu stendur skiptir D-vítamínbætt léttmjólk tímabundið um útlit og renna 30 kr. af hverri seldri fernu til tækjakaupa á spítalanum. Átakinu var hleypt af stokkunum á einni af skurðdeildum Landspítalans þar sem Ari Edwald, forstjóri MS, afhenti Páli Matthíassyni, fyrstu góðgerðarfernuna.

Á síðasta ári söfnuðust 15 milljónir og í framhaldinu var fest kaup á nýjum beinþéttnimæli en sá sem fyrir var var kominn til ára sinna og orðinn nær óstarfhæfur. Í ár er markmiðið að safna aftur 15 milljónum og verða þær nýttar til að stórbæta tækjabúnað og starfsaðstöðu á bæklunarskurðdeild Landspítalans. Til stendur að endurnýja skurðarborð og lyftara sem léttir undir með skurðlæknum og –hjúkrunarfræðingum meðan á aðgerð stendur og mun hvort tveggja stórbæta vinnuumhverfi deildarinnar, starfsfólki sem og sjúklingum í hag. Þessi tækjakostur mun að auki flýta fyrir framþróun á deildinni en án stuðnings MS og íslenskra neytenda yrði ekki fjárfest í þessum búnaði fyrr en eftir fjögur ár.

Mjólkurfernan sem gefur styrkinn er D-vítamínbætt léttmjólk í ljósgulri fernu og í ár prýðir fernuna málverk eftir íslensku listakonuna Gunnellu sem ber heitið Auðhumla. Frá kúnni Auðhumlu streymdu fjórar mjólkurár sem nærðu jötuninn Ými en í túlkun listakonunnar reynast þær jafnframt prýðisgóðar laxveiðiár. Á nýju fernunni eru skýr skilaboð um átakið en að öðru leyti er varan nákvæmlega sú sama og sú sem fyrir er og hverfur af markaði í nokkrar vikur meðan á átakinu stendur. Með því að kaupa góðgerðarfernuna á sama verði og fyrr, geta neytendur hjálpað að við að styrkja gott málefni og lagt sitt af mörkum til að bæta tækjakost Landspítalans.

Hér sést Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans, taka við nýju góðgerðarfernunni frá Ara Edwald, forstjóra Mjólkursamsölunnar.

#mjolkingefurstyrk

Mjólkin gefur styrk from Landspítali on Vimeo.

 

Fleiri fréttir

 

Aðstoð

Hvernig getum við aðstoðað?