Málarekstur sem fær ekki staðist

Samkeppniseftirlitið(SE)  hefur höfðað dómsmál gegn Mjólkursamsölunni(MS) til ógildingar á úrskurði áfrýjunarnefndar samkeppnismála. Endanleg niðurstaða á stjórnsýslustigi var að MS hefði ekki brotið nein lög með framgöngu sinni á markaði. MS leitar úrlausnar dómstóla samhliða málshöfðum SE.

 

Enda þótt mjólkuriðnaðurinn hafi heimild til samstarfs á grundvelli búvörulaga er hann ekki undanþeginn banni samkeppnislaga við misnotkun á markaðsráðandi stöðu. Samkeppniseftirlitið heldur því fram í málshöfðun sinni að MS hafi brotið gegn banninu en áfrýjunarnefndin talið að ákvæði búvörulaga veittu undanþágu frá bannreglunni. Enginn fótur er fyrir þessari túlkun því niðurstaðan byggðist á að engin misnotkun hefði átt sér stað. Áfrýjunarnefndin úrskurðaði að framkvæmd samstarfsins hefði verið málefnaleg og forsvaranleg.

 

Ljóst er af afskiptum samkeppnisyfirvalda af málefnum mjólkuriðnaðarins, að Samkeppniseftirlitið fjallar ekki um málefni MS og mjólkuriðnaðarins af þeirri hlutlægni, sem gera verður kröfu um til stofnunar á vegum ríkisins. Hefur saga þeirra afskipta síðustu tuttugu árin verið tekin saman og talar skýru máli. Framganga MS á markaði hefur verið í samræmi við efnisreglur samkeppnislaga og annarra laga. Síendurteknar fullyrðingar stjórnenda Samkeppniseftirlitsins um annað hafa ekki staðist. Það er augljóst að stjórnendur þess eru ósáttir við það fyrirkomulag sem löggjafinn hefur ákveðið að hafa á mjólkurmarkaði en þeim ber eins og öðrum í samfélaginu að virða gildandi lög.

 

Nýjasta varðan í þessari sögu er niðurstaða áfrýjunarnefndar samkeppnismála frá því í nóvember 2016, sem felldi úr gildi ákvörðun Samkeppniseftirlitsins frá í júlí 2016 sem hafði sektað MS um 440 mkr fyrir meint samkeppnislagabrot. Var sektin endurgreidd með vöxtum. 40 mkr sekt fyrir upplýsingabrot undir rekstri málsins var hins vegar staðfest en dómstólar munu nú einnig fjalla um þann þátt málsins.

 

Reykjavík, 25.01.2018

 

Tímalína um afskipti samkeppniseftirlitsins að málefnum mjólkuriðnaðarins:

https://www.ms.is/um-ms/samkeppnismal/timalina

Fleiri fréttir

 

Aðstoð

Hvernig getum við aðstoðað?